Gummi ben: „ömurlegt. eina orðið sem ég á yfir þetta. ömurlegt að vera rekinn úr starfi sem þeir elska“

Þetta sagði sjónvarpsstjarnan, íþróttafréttamaðurinn og fótboltagoðsögnin Guðmundur Benediktsson, eða Gummi Ben eins og hann er oft kallaður, í samtali við Sigmund Erni í þættinum Mannamál sem sýndur er á Sjónvarpsstöðinni Hringbraut. Þar sagði hann Sigmundi Erni sögu sína, allt frá því hann byrjaði tuðrusparkið heima í Þorpinu á Akureyri og rölti yngstur manna inn á völlinn í meistaraflokksleik í efstu deild - og í hönd fóru ævintýraleg ár, en einnig erfið, sakir endurtekinna meiðsla sem þýða í dag að karlinn getur sig varla hreyft, svo ónýt eru hnén og frá því erfiða augnabliki þegar hann var rekinn sem aðstoðarþjálfari KR. Guðmundur var þá nýlega búinn að lýsa leik Íslands og Austurríkis á EM í knattspyrnu og framundan var risa leikur gegn Englandi. Bjarni Guðjónsson var þá þjálfari KR en Guðmundur honum til aðstoðar.

Um þetta segir Gummi Ben: „Ég fékk leyfi á þessum tíma frá KR að taka þetta að mér, þrátt fyrir að þetta [EM] væri um mitt sumar. Það var líka háð því að ég væri að fara lýsa leikjunum og kæmi svo heim aftur, í æfingar og leiki hjá KR. Gengi okkar var ekki nægilega gott á þessum tíma.

Eftir Austurríkis leikinn flýg ég heim og gott ef við [KR] töpum ekki leik þar í millitíðinni. Þá fær maður símtalið, [viltu] aðeins að hitta okkur og ég er rekinn. Um kvöldið er ég floginn aftur út, við erum að fara spila við England. Erum kominn í sextán liða úrslit, stærsti leikur Íslandssögunnar er framundan.“

Gummi Ben segir að hann hafi verið í tilfinningarússíbana á þessum tíma.

„Það hefur enginn áhuga á að vera rekinn úr starfi sem þeir hafa áhuga á og elska. Það var sannarlega þannig hjá KR þegar við vorum að þjálfa, að við vildum gera það mjög vel en þetta er þannig heimur að stundum gengur það upp. Þarna var þetta að sjálfsögðu mikill rússíbani, því það var risa leikur daginn eftir.“

Þá segir Guðmundur að lokum:

„Þetta var ömurlegt. Það er eina orðið sem ég á yfir þetta. Það er ömurlegt að vera rekinn úr vinnu sem maður er í og var gaman að. Þess vegna segi ég það, það var alveg erfitt að ná að gíra sig upp í það, þessi risaleikur sem beið manns.“

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið í heild sinni: