Gissur: „það er auðvelt að losa sig við þau og það er kostur“ - sólveig anna fordæmir ummælin

Í pallborðsumræðum í hátíðarsal Háskóla Íslands síðastliðinn föstudag fór fram umræða um fólksflutninga og aðbúnað fólks af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði. Viðburðurinn var skipulagður á vegum öndvegisverkefnisins Hreyfanleiki og þverþjóðleiki á Íslandi. Umræður fóru fram í kjölfarið og tók til máls meðal annars Gissur Pétursson, ráðuneytisstjóri hjá félagsmálaráðuneytinu. 

„Það er auðvelt að losa sig við þau og það er kostur. Við höfum boðið þeim íslenskunámskeið en þetta fólk nennir ekki að læra tungumálið! Af hverju ættum við að hlúa að þeim?. Við vitum ekki betur en að það sé á leið úr landi“

Ummæli Gissurar vöktu mikil viðbrögð á fundinum og undruðu fólk sig á ummælum ráðuneytisstjórans.

„Er þýðingin rétt? Hvar er ég stödd?“ Þetta segir Dovelyn Rannveig Mendoza, sérfræðingur í stefnumótun á sviði fólksflutninga, eftir að hafa hlýtt á ummæli Gissurar Péturssonar, ráðuneytisstjóra félagsmála sem mættur var fyrir hönd félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar. 

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags, segir í yfirlýsingu vegna málsins að hún fordæmi ummæli og framgöngu Gissurar og skorar á Ásmund Einar Daðason að axla ábyrgð vegna ummælanna.

„Því miður hefur Efling þurft að hafa afskipti af alvarlegum málum þar sem brotið hefur verið með grófum og skipulögðum hætti á erlendu verkafólki.  Sem ráðuneytisstjóri félagsmála, og áður forstjóri Vinnumálastofnunar, ber Gissur mikla ábyrgð innan málaflokksins. Við meðhöndlun málanna hafa fulltrúar Eflingar orðið vitni að ummælum og framgöngu sem eru í samræmi við ofangreind ummæli þar sem hann hefur haft velferð brotaþola í flimtingum og lagt áherslu á væntanlegan brottflutning verkamanna úr landi fremur en úrlausn og skipulega meðferð brotanna. Undirritaðar fordæma ummæli og framgöngu ráðuneytisstjórans, Gissurar Péturssonar, og skora á Ásmund Einar Daðason að axla ábyrgð í máli þessu.“