Fíkniefnið spice hættulega algengt á litla-hrauni: „við höfum þurft að kalla til sjúkrabíl oftar en einu sinni og oftar en tvisvar“

Fangelsisyfirvöld og lögregla heyja nú erfiða baráttu við fíkniefnið Spice sem hefur orðið algengt meðal fanga á Litla-Hrauni.

Efnið hefur alvarleg áhrif á notanda þess en meðal áhrifa er skapbreyting, ranghugmyndir, ofsóknarbrjálæði, hár blóðþrýstingur, nýrnaskaði og vöðvakrampar.

Í lok sumars lést fangi á Litla-Hrauni og við krufningu kom í ljós að hann hafði innbyrt mikið magn af efninu. Ítarlega er fjallað um málið í Fréttablaðinu í dag.

Meðferðarfulltrúi á Litla-Hrauni, lögreglumenn, lyfjafræðingur og formaður félags fanga voru allir sammála um hættu efnisins og ræddi blaðamaður Fréttablaðsins við þá.

„Spice er stórt vandamál hérna og það er mjög erfitt að fást við þetta. Þetta er það vímuefni sem við höfum verið mest að kljást við í marga mánuði,“ segir Jón Þór Kvaran, meðferðarfulltrúi á Litla-Hrauni og segir enn fremur: „Það eru allir að reyna að gera sitt besta en það hefur ekki gengið vel. Nánast daglega erum við að taka efni og neyslutól en það virðist engu breyta.“

Þá segir Jón Þór fangana vera eina í klefum sínum frá klukkan 22:00 til 08:00 og þá sé neysla efnisins að fara fram. Lítið megi bregða útaf til þess að efnið sé of sterkt blandað.

„Ef þeir klikka á blöndunni, blanda of sterkt eða álpast til að nota þetta hreint, þá fá menn krampaköst og verða ósjálf bjarga. Við höfum þurft að kalla til sjúkrabíl oftar en einu sinni og oftar en tvisvar,“ segir Jón Þór.

Jón Þór telur líklegast að efnin komi inn með heimsóknargestum fangana og að mögulega séu notendur þess komnir í skuld við aðra fanga þar sem efnið er mjög dýrt innan fangelsisins. Það sé því pressað stíft á þá sem skulda og fengið þá meðal annars til þess að láta aðstandendur smygla efnum inn í gegnum gestaheimsóknir.

Áhrifin meiri og ákafari en af kannabis

Valþór Ásgrímsson, verkefnastjóri hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði hjá Háskóla Íslands segir í viðtali Fréttablaðsins að áhrif efnisins svipað að einhverju leiti til áhrifa kannabis en að oft séu þau meiri og ákafari.

„Efnin eru virk í mjög smáum skömmtum og því getur lítill munur í skömmtun orðið að miklum mun í áhrifum. Almennt má segja að efnin séu oft mjög stutt á markaði, hverfa oft jafn hratt og þau birtust og því mjög erfitt að eltast við hvert einstakt efni. Þá er einnig nánast vonlaust fyrir neytandann að vita hvaða efnis hann er að neyta,“ segir Valþór.

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga og annarra áhugamanna um fangelsismál og betrun segir eftirspurnina með efninu gríðarlega mikla.

„Iðjuleysið er mikið, atvinnuleysið og skortur á útiveru líka. Menn eru í geymslu þarna inni og reyna að finna eitthvað til að lyfta sér upp. Þegar eitthvað nýtt kemur á markaðinn, því hættulegra er það. Það eru endalausar leiðir til að koma efnum inn í fangelsið. Á meðan eftirspurnin er fyrir hendi skiptir engu máli hvort þú er vistaður í öryggisfangelsi eða einangrun, þú færð alltaf efnin,“ segir Guðmundur sem telur að hertari reglur og strangara eftirlit sé ekki lausnin.

„Líkt og úti í samfélaginu þá hafa fangelsisyfirvöld ekki skilning á að þetta eru veikir einstaklingar og vímuvarnirnar sem beitt er þarna virka ekki.“

Lesa má ítarlegt viðtal og umfjöllun um málið í Fréttablaðinu í dag.