Of langt gengið að krefjast þess að erlendir jarðakaupendur búi hérlendis

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við DV að skiptar skoðanir séu innan flokksins varðandi mögulegar breytingar á lögum vegna jarðakaupa erlendra ríkisborgara. Brynjar segist vera opinn fyrir mögulegum breytingum á lögunum, en segir samt að takmörk væru fyrir því hversu langt væri hægt að ganga með málið, enda yrðu menn að líta til eignaréttarins sem sé tryggður í stjórnarskrá landsins.

„Nei, það væri aðeins of langt gengið,“ sagði Brynjar þegar hann var spurður um hvort hann myndi samþykkja lög sem myndu skylda erlenda ríkisborgara að þurfa að búa á jörðunum sjálfum og vera með lögheimili þar. Hann segir einnig að málið hafi ekki verið sérstaklega rætt innan þingflokks sjálfstæðismanna nýlega. 

Samkvæmt hugmyndum sem starfshópur skilaði inn vegna eignarhalds á bújörðum kemur fram að það gæti verið ein leið til að takmarka kaup erlendra auðmanna á jörðum hér á landi. Katrín Jakobsdóttir hefur sagt að það sé breiður pólitískur vilji fyrir því að takmarka kaup þeirra á jörðum hér á landi. Vonast er til þess að frumvarp varðandi þetta mál verði lagt fyrir þingið næsta haust.