Davíð sakar Bjarna Ben um að hafa gengið á bak orða sinna

Davíð sakar Bjarna Ben um að hafa gengið á bak orða sinna

Ekki stóð til að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, yrði endurskipaður í starf sitt að loknu fyrra ráðningartímabili sínu árið 2014 og eftir að hann var samt endurskipaður stóð aðeins til að hann myndi vinna í eitt ár, að því er Davíð Oddsson fullyrðir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag.

„Ekki allir trúaðir á málatilbúnað” Bjarna

Davíð, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum Seðlabankastjóri, vænir Bjarna Benediktsson, núverandi formann Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, um að hafa gengið að baki orða sinna hvað þau mál varðar. 

„Þegar að [endurskipun Más] dró var ráðherrann staddur fyrir norðan, sennilega á Siglufirði, og hringdi í menn og upplýsti þá, og þar á meðal ritstjóra Morgunblaðsins, að vegna óvænts flækjustigs sem upp hefði komið (sem ekki verður farið út í hér) hefði hann ekki náð að gera breytingarnar sem hann hefði margboðað. Hann myndi því skipa Má og skipunarbréfið gæfi til kynna að það yrði til fimm ára. Hins vegar væri sameiginlegur skilningur á því að skipunin stæði í hæsta lagi til eins árs. Ekki voru endilega allir mjög trúaðir á þennan málatilbúnað. En samkvæmt minnispunktunum sagði ráðherrann efnislega á þessa leið: Þessu mega menn treysta og Már gerir sér grein fyrir þessu …”

Vitnar Davíð í fimm ára gamla yfirlýsingu Más því til sannindamerkja að Már hafi talið þetta myndi verða raunin, en hann hafi hins vegar setið áfram næstu ár og til loka fimm ára skipunartímans með vilja og vitund Bjarna.  „Útkoman varð sú að fjármálaráðherrann de facto skipaði Má tvisvar með því að standa ekki við yfirlýsingar sínar. Engin skýring hefur fengist á því,” segir Davíð.

Vænir Bjarna um yfirlæti og þótta

Hann skýtur síðan föstum skotum sem virðist beint rakleiðis að Bjarna Benediktssyni, núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, og vænir hann um útúrsnúninga, þótta og yfirlæti gagnvart öðrum flokksmönnum, einkum þeim sem teknir eru að reskjast.  „Og eins og sést glitta í núna hika menn ekki í sínum erindrekstri að útskýra fengnar niðurstöður fólksins burt með útúrsnúningum, sem eru ögrun við skynsemi landsfundarfulltrúa. Nú þykir fínt að reynslulítið fólk, sem hefur fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokkssystkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öllum illa.”

Davíð segir sömuleiðis í umræddu Reykjavíkurbréfi að hann hafi alla sína formannstíð yfirfarið sjálfur og jafnvel breytt ályktunum sem leggja átti fram á landsfundum Sjálfstæðisflokksins, teldi hann að „ eitthvað mætti betur fara eða eitthvað ylli misskilningi”. Þá hafi hann rætt við flutningsmenn viðkomandi ályktanna og knúið fram þá breytingu sem hann vildi ná fram. Nú sé hins vegar öldin önnur.

„Síðustu árin hefur virst að forystusveitinni sé nokkuð sama um hvað samþykkt sé á landsfundum, því að ekkert þurfi með það að gera,” segir Davíð.

Nýjast