Boeing 737-max flugvélar icelandair ekki í loftið á þessu ári – hyggjast krefja boeing um milljarða í skaðabætur

Icelandair hefur uppfært flugáætlun sína til ársloka og gerir samkvæmt henni ekki ráð fyrir Boeing 737-MAX vélum í rekstri fyrir þann tíma. Flugfélagið hefur því aðlagað flugáætlun sína í samræmi við það og aðra þróun á markaði. Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair Group til Kauphallarinnar.

Sem kunnugt er kyrrsetti Icelandair allar Boeing 737-MAX 8 flugvélar fyrirtækisins þann 12. mars síðastliðinn í kjölfar þess að tvær flugvélar af sömu gerð hröpuðu með nokkurra mánaða millibili. Fórst vél Lion Air frá Indó­nes­íu í októ­ber á síðasta ári og vél Et­hi­opi­an Air­lines  þann 10. mars á þessu ári.

Á dögunum sagðist Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, búast við því að MAX-vélar flugfélagsins kæmust aftur í gagnið í október. Höfðu tilkynningar frá fyrirtækinu sömuleiðis miðast við það.

Kjarninn greinir frá því að Icelandair Group hafi tapað alls 89,4 millj­­ónum dala, um ell­efu millj­­örðum króna, á fyrstu sex mán­uðum þessa árs. Heildartekjur jukust þó á sama tíma, launakostnaður lækkaði en eldsneytiskostn­aður og kostn­aður vegna flug­­­véla­­leigu hækk­­aði. 

Ástæðan fyrir þessu slaka upp­­­gjöri er fyrst og fremst sögð vera kyrr­­setn­ingar á MAX-­­vélum Icelanda­ir. Flugfélagið hefur þegar fengið sex slíkar vélar afhentar og átti von á þremur til við­­bót­­ar. Stefnt hafði verið að því að MAX-­­vél­­arnar myndu sam­svara 27 pró­­sent af sæta­fram­­boði félags­­ins á árinu 2019.

Icelandair hyggst krefj­­ast 17 millj­­arða króna í skaða­bætur frá Boeing vegna kyrr­­setn­ingar á MAX-­­vél­um flugfélagsins.