Aukinn innflutningur á illgresiseyðum - jókst um 56% árið 2018

Umhverfisstofnun lauk nýverið úttekt á plöntuverndarvara fyrir árið 2018 með hliðsjón af gögnum frá Tollstjóra og upplýsingum frá innflutningsaðilum. Vöruflokkar sem falla undir plöntuverndarvörur eru illgresiseyðar, sveppaeyðar, skordýraeyðar og stýriefni til notkunar í landbúnaði og garðyrkju og af þeim hafa illgresiseyðar verið með mesta markaðshlutdeild, um eða yfir 80%, eins og illgresiseyðinn Roundup.

Niðurstöður úttektar Umhverfisstofnunar sýna að heildar innflutningur plöntuverndarvara nam 18 tonnum á árinu 2018 og jókst því umtalsvert frá fyrra ári eða um 56%. Umhverfisstofnun hefur tekið saman gögn um innflutning plöntuverndarvara allt frá árinu 2009 og á þeim tíma hefur þróunin verið í þá átt að innflutningur á þessum vörum hefur dregist saman.

Plöntuverndarvörur geta haft neikvæð áhrif á heilsu og umhverfi og þegar reynt er meta álagið af þeirra völdum gefur magn virkra efna mun betri vísbendingar um raunverulegt álag heldur en heildarmagnið sem sett er á markað. Þar sem styrkur virku efnanna í plöntuverndarvörum liggur alltaf fyrir er hægt að reikna út frá heildarmagninu af vörum hve mikið af virkum efnum er sett á markað hverju sinni. Sé þetta gert fyrir árið 2018 kemur í ljós að innflutningur á plöntuverndarvörum, mældur í magni af virkum efnum, dróst saman frá fyrra ári, þrátt fyrir að heildarmagnið hafi aukist. Það skýrist af því hversu mikið var flutt inn af vörum á árinu sem innihéldu lágan styrk af virkum efnum, en þar var einkum um að ræða illgresiseyða sem innihalda glýfosat.

Hringbraut fjallaði um fyrir stuttu að Vegagerðin hafi notað yfir 1.300 lítra af illgresiseyðinum Roundup á árunum 2009 til 2016. Um er að ræða Roundup þykkni sem blandað er í vatn. Í samtali við Hringbraut staðfestu nokkrir starfsmenn Vegagerðarinnar að 1000 lítrum af vatni væri blandað við fimm lítra af Roundup þykkninu. Það þýðir að um 260 þúsund lítrum af vökva sem innihélt Roundup var dreift víðsvegar um Ísland. Að sögn Vegagerðarinnar hefur Roundup ekki verið notað síðan 2016.