Alma segir landsbjörgu nýta sér veikindi fólks: „hvað er ásættanlegt að skaða margar fjölskyldur?“

Alma Hafsteinsdóttir, fíkni- og fjölskyldumarkþjálfi segir að góðgerðasamtök á borð við Landsbjörg nýti sér neyð og veikindi einstaklinga.

Með orðum sínum á Alma við peninga sem renna í starfsemi Landsbjargar í gegnum spilakassa. Alma birti grein um efnið á Vísi.

„Ef þú kæri lesandi átt leið í söluturn, vídeoleigu, veitingahús eða bar og sérð þar fólk fast í spilakössum, vinsamlega þakkaðu spilafíklinum og knúsaðu hann fyrir að standa vaktina og fyrir að leggja líf sitt og mögulega fjölskyldu sína undir í þessum leik upp á líf og dauða,“ segir Alma í pistli sínum sem hún birti í tilefni sölu Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Neyðarkallinum.

„Slysavarnafélagið Landsbjörg talar um „neyðarkall til þín“, en á sama tíma heyrir það ekki neyðarkall spilafíkla sem standa við spilakassa alla daga, allan daginn,“ segir Alma sem segir þessa einstaklinga eiga fjölskyldur, börn og ástvini en þrátt fyrir hróp á hjálp komi þeir að lokuðum dyrum hjá Slysavarnafélaginu.

„Þar á bæ tala menn um ásættanlegan fórnarkostnað, þ.e. þetta fólk er ásættanlegur fórnarkostnaður til að afla fjár fyrir starfsemi félagsins. Börn þessara einstaklinga horfa á eftir foreldri sínu hverfa inn í heim spilafíknar í spilakassa. Foreldrar horfa á eftir börnum sínum inn í heim spilafíknar. Foreldrar hafa þurft að fylgja barni sínu til grafar vegna spilafíknar. Enginn heyrir og enginn er tilbúinn að setjast niður með foreldrum barns og útskýra fyrir þeim að barnið þeirra hafi verið ásættanlegur fórnarkostnaður.“

Segist Alma velta því fyrir sér hversu stór ásættanlegur fórnarkostnaður sé.

„Aðstandendur spilafíkla hafa lýst því svo að það að búa með virkum spilafíkli sé eins og að vera í helvíti. Hvað er ásættanlegt að skaða margar fjölskyldur?“

Alma segist gera sér grein fyrir því að Landsbjörg hafi komið mörgum til bjargar og unnið gott starf en að spilafíklar séu þar undanskildir. Segist henni dreyma um að samtökin og fleiri stofnanir svari neyðarkalli þessa hóps og hjálpi spilafíklum og ástvinum þeirra í kalli eftir lífi án fjárhættuspila.