Sif Sig­mars: Lítill skortur á fólki sem til­­búið er að kenna sig við mótið

Sif Sigmarsdóttir, einn vinsælasti pistlahöfundur landsins, skýtur föstum skotum á þá sem taka þátt með einum eða öðrum þætti í HM í Katar í grein sinni í helgarblaði Fréttablaðsins.

„Heims­meistara­mót karla í knatt­spyrnu er hafið. Mótið sem fram fer í Katar er um­deilt vegna bágs á­stands mann­réttinda þar í landi. Talið er að 6.500 farand­verka­menn hafi látið lífið við byggingu mann­virkja fyrir keppnina. Sigurður Kristins­son, prófessor í heim­speki við Há­skólann á Akur­eyri, líkir með­ferð á verka­mönnum í Katar við þræla­hald í sam­tali við RÚV og segir fót­bolta­á­huga­fólk vera í sömu stöðu og væri því boðið til veislu þar sem fram­reiddur væri þjóf­stolinn matur og þrælar þjónuðu til borðs,“ segir Sif.

Þá telur hún einnig upp bann Katar við samkynhneigð, hvernig talsmenn mótsins hafa sagt kynhneigðina stafa af skemmd í heila og hvernig gestum mótsins hefur verið skipað að ganga ekki í fatnaði í regnbogalitunum.

Þrátt fyrir þessi umdeildu mál bendir Sif á að nóg sé til af fólki sem sé tilbúið að kenna sig við mótið.

„En þrátt fyrir illan orð­stír virðist lítill skortur á fólki sem til­búið er að kenna sig við mótið. Fyrr­verandi fót­bolta­stjarnan David Beck­ham er sakaður um að hvít­þvo Katar en hann er sagður hafa fengið greidda 26 milljarða ís­lenskra króna fyrir að vera and­lit mótsins. Tón­listar­menn á borð við Robbie Willi­ams og Fat­boy Slim, sem áður skreyttu sig fjöðrum mann­réttinda­bar­áttu sam­kyn­hneigðra, skemmta nú í Katar,“ bætir Sif við.“

Þótt Íslendingar séu ekki með lið á mótinu segir Sif að við eigum okkar eigin fulltrúa á HM.

„Við Íslendingar eigum ekki lið á Heimsmeistaramótinu. Við eigum þó okkar fulltrúa í orðsporsþvottahúsinu. Á RÚV var nýverið greint frá því að listamaðurinn knái Ólafur Elíasson sýndi nýtt 150 metra langt stállista­verk í Katar í tengslum við mótið. Prófessor við Listaháskóla Íslands sagðist ekki álasa Ólafi fyrir þátttöku í Katar. „Við skulum hafa í huga að Ólafur Elíasson er risastórt fyrirtæki, þetta eru yfir 300 manns sem vinna hjá honum. Það segir sig sjálft að það þarf peninga til að láta þetta ganga.“ Og KSÍ lætur ekki sitt eftir liggja. Sendinefnd á vegum sambandsins var í góðum gír á opnunarleik mótsins.“

Að lokum bendir Sif á að vatnsbrúsa hannaðan af Ólafi Elíassyni fyrir HM í Katar megi kaupa á internetinu fyrir 5.800 krónur.

„Mannréttindum veraldar stafar ekki hætta af einræðisherrum í Katar; það verður ekki með einu þungu slagi sem mannréttindum er veitt náðarhögg. Dauði mannréttinda mun verða af þúsund skrámum veittum af þeim sem frestuðu fram á dánardægur að þróa með sér sómakennd.“