Hörður magnússon rekinn fyrirvaralaust: „hrikti undir mínum stoðum í morgun“

Íþróttafréttamaður Hörður Magnússon var í dag rekinn fyrirvaralaust eftir 19 ára starf á Stöð 2 og Sýn. Hörður tjáir sig um brottreksturinn á samskiptamiðlum. Hörður hefur ekki viljað tjá sig um málið við fjölmiðla og vísar í færslu sína á Facebook.

Hörður greinir frá þessum óvæntu tíðindum með eftirfarandi hætti:

„Mitt líf hefur verið uppfullt oft á tíðum af óvæntum beygjum. Ein slík hrikti undir mínum stoðum í morgun. Á 3 mínútna fundi var mér fyrirvaralaust sagt upp störfum eftir tæplega 20 ár. Hef reynt að vinna af heilindum og samviskusemi alla tíð.

Vænst þykir mér að hafa kynnst mörgu frábæru fólki í gegnum tíðina. Ég hef verið heill þrátt fyrir atvinnutilboð annars staðar frá. Pepsi Mörkin voru ekki bara vinna. Þau standa mér næst. Í 9 ár án þess að missa úr þátt þá er það mest sem ég er stoltur af.

Lýsingar á vettvangi í Moskvu Wembley, og Munchen eru eftirminnilegar sem og HM 2006. Ég kveð með söknuði. En það skyldi engan afskrifa mig. Góðar stundir.“