Fer ekki fram gegn sitjandi formanni

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra er gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamáli á Hringbraut í kvöld og er óhætt að segja að þar birtist hann í einhverju einlægasta og persónulegasta viðtali sem hann hefur veitt í sjónvarpi.

Sigurður ræðir meðal annars af hispursleysi þegar hann missti foreldra sína í bílslysi á Hellisheiði á námsárum sínum í dýralækningunum úti í Danmörku, en þá kveðst hann hafa kynnst því að orðatiltækið um að tíminn lækni öll sár sé ekki með öllu sannleikanum samkvæmt. Þetta stærsta áfall lífs hans hafi reynst honum afar þungbært og breytt viðhorfi hans til lífsins. Og það sést vel í viðtalinu að Sigurður Ingi á enn erfitt með að rifja upp þessa dimmu daga lífsins.

Hann ræðir æsku sína í Hrunamannahreppi og starfið sem dýralæknir um allar sveitir þar sem hann kynntist ógrynni fólks, en fjallar einnig um flokkinn sinn og stöðu hans, framboð sitt fyrir röskum átta árum sem kom til fyrir tilviljun og lýsir í þaula deginum og andrúmsloftinu, svo og líðaninni þegar hann tók við embætti forsætisráðherra er hann gekk niður stiga þinghússins með Bjarna Benediktssyni, með klút um hálsinn og giftingarhringinn á þumalputta, svo eftir var tekið og varð tilefni flugusagna, en í viðtalinu lýsir hann því hvernig sú sérsviska kom til.

Hann ræðir opinskátt um mögulegar breytingar á forystu flokksins, kveðst ekki munu fara gegn sitjandi formanni, en ef hann hugsi sér til hreyfings - og vissulega sé óvenjuleg staða innan flokksins nú um stundir - kveðst hann ekki ætla að skorast undan ábyrgð, ekki frekar en þegar hann tók við forsætisráðherraembættinu fyrr á árinu.

Mannamál eru frumsýnd klukkan 20:30 í kvöld.