Eigendur smálánafyrirtækja fela sig

Eyrún Magnúsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, sem var viðmælandi þáttarins Ég bara spyr í vikunni, segir að þrátt fyrir ítarlega skoðun, sé ljóst að eigendur smálánafyrirtækja vilji hafa eignarhaldið sem óljósast.

Sem dæmi um skýringar í ársreikningum má sjá tilvísunina ,,Ótilgreindir útlendingar.” Með þessu er vísað í fyrirtæki sem Eyrún segist ekki betur geta séð en hafi bara verið skúffufyrirtæki á Kýpur. Eyrún segir að mennirnir á bakvið smálánafyrirtækin Hraðpeningar, Múli og 1909 séu þeir Skorri Rafn Rafnsson og Óskar Þorgils Stefánsson. Sá síðarnefndi er framkvæmdastjóri Neytendalána ehf, en þeir innheimta lán og flýtigjöld þeirra smálánafyrirtækja sem hér hafa verið nefnd. Skorri Rafn er framkvæmdastjóri Móbergs sem á og rekur nokkur netfyrirtæki eins og hun.is, bland.is, Netgíró og fleiri. Hann var einnig í forsvari fyrir smálánafyrirtæki sem opnaði í Króatíu fyrir nokkrum árum. Þar í landi, breyttu stjórnvöld hins vegar lögunum þannig að fyrirtæki sem þessi lögðust af og hættu.

Í þættinum sagði Eyrún að réttnefni smálána væru okurlán. Orðið ,,smálán\" væri eins og einhver krúttleg lýsing á litlu láni, þegar staðreyndin væri lán með þúsundum prósenta í vexti. Að sögn Eyrúnar er lítið sem ekkert eftirlit með smálánafyrirtækjum hér á landi. Þau heyra til dæmis ekki undir eftirlit FME og aðeins Neytendastofa getur ályktað um þeirra mál. Það hefur hún gert en Eyrún sagði að sektir á hennar vegum væru svo lágar að mjög líklega hefðu þær engin áhrif á starfssemi smálánafyrirtækjanna því þeim hreinlega munaði ekki um þær upphæðir sem þar væri um að ræða.

Í þættinum kom fram vilji þingmanna Bjarkar Gunnarsdóttur og Vilhjálms Bjarnasonar til að girða fyrir starfsemi okurlánafyrirtækja á Íslandi, en fjöldi dæma er um að ungt fólk hafi orðið hastarlega fyrir barðinu á þessum fyrirtækjum sem mega, eins og dæmin sanna úr fyrri þáttum, fara inn á reikninga fólks og sækja sér þar fjármuni að vild.

Þátturinn Ég bara spyr er endursýndur kl.21.30 á föstudagskvöldum.