Andstæðingar orkupakkans hittast á leynifundum í decode

„Við eigum að hafa raforkuna á framleiðsluverði og ekki krónu umfram það til þess að lækka kostnað heimilanna og hlúa að fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.“

Þetta sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í pistli í Fréttablaðinu í gær. Pistli sem hefur vakið mikla athygli og farið sem eldur í sinu um samfélagsmiðla. Pistill vísindamannsins í Vatnsmýri fjallar um þriðja orkupakkann og hvetur Kári til þess að pakkanum verði hafnað. Og Kári er harðorður Í pistlinum sver hann sig í hóp með Miðflokksmönnum, Styrmi Gunnarssyni fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Frosta Sigurjónssyni fyrrverandi alþingismanni, Davíð Oddssyni, Hjörleifi Guttormssyni, Hannesi Hólmstein Gissurarsyni, Ögmundi Jónassyni, Einar S. Hálfdánarsyni, Tómasi Inga Olrich, Jóni Bjarnasyni og Guðna Ágústssyni fyrrverandi ráðherra fyrir Framsóknarflokkinn. Bent hefur verið á að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér framsal á eignarétti að orkuauðlindum landsins eða yfirráðum yfir nýtingu orkugjafa. Þetta hefur fyrrum framkvæmdastjóri hjá ESA staðfest.

Og hluti af þessum hóp hittist á laugardögum í höfuðstöðvum Decode. Þar fundar hópurinn sem hefur í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum hvað mest gagnrýnt þriðja orkupakkann. Þá hafa þeir fengið til liðs við sig Gunnar Stein Pálsson sem var einn helsti almannatengill Samfylkingarinnar og forsetans á sínum tíma, en Gunnar er einn reyndasti almannatengill landsins. Þá vann Gunnar Steinn töluvert fyrir Sigurð Einarsson fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings og Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóra Kaupþingssamstæðunnar, auk þeirra Ágústar og Lýðs Guðmundssona í Bakkavör.

Gunnar Steinn er því enginn nýgræðingur þegar kemur að því að hafa áhrif á íslenska umræðu. Þannig greindi Viðskiptablaðið frá því árið 2013 að skjal frá árinu 2009 merkt almannatenglinum Gunnari Steini hefði fundist þar sem sett var fram víðtæk áætlun um hvernig mætti hafa áhrif á umræðu um helstu lykilpersónur í hruninu. Í skjalinu kom einnig fram hvernig hægt vær að stofna bloggher til að hafa áhrif á umræðuna. Þegar Gunnar Steinn var spurður um skjalið af blaðamanni Morgunblaðsins neitaði hann að hafa ræst út bloggher en hefði ráðið menn til ráðgjafar sem hefðu vissulega verið þátttakendur í bloggheimum!

Heimildarmenn Hringbrautar telja nokkuð ljóst að hópurinn sem hittist reglulega í Decode ætli sér stóra hluti með tilkomu Gunnars Steins og nú eigi að undirbúa stórsókn þar sem skrifaðar verða blaðagreinar, bloggfærslur og pistlar á samfélagsmiðla.