Zainab: „ég vil bara fá að búa hér allt mitt líf og gera eitthvað gott fyrir samfélagið“

„Ég varð mjög sorgmædd við fréttirnar því ég vil ekki fara aftur til Grikklands. Það hef ég sagt aftur og aftur, þúsund sinnum. Við verðum ekki örugg þar. Við vitum ekki hvað verður því að lögreglan hefur ekki gefið upp dagsetningu á því hvenær stendur til að flytja okkur úr landi svo við bíðum bara og vitum ekkert.“

Þetta segir Zainab Safari, fjórtán ára gömul stúlka frá Afganistan, í ítarlegu viðtali við Stundina í dag. Líkt og komið hefur fram í fréttum undanfarið stendur til að senda hana úr landi ásamt móður sinni og bróður. Fjölskyldan þyrfti þá að snúa aftur til flóttamannabúða í Grikklandi, þar sem hún dvaldi um tveggja og hálfs árs skeið áður en hún kom til Íslands. Fjölskyldan hefur dvalið hér á landi um tíu mánaða skeið.

Zainab óttast að eitthvað slæmt geti komið fyrir verði fjölskyldan send aftur til Grikklands og rifjar upp hvernig hún upplifði búðirnar þar í landi. „Þegar ég fór út í Grikklandi var ég alltaf hrædd um að eitthvað kæmi fyrir, að einhver væri að elta mig, það vakti mér stanslausan ótta. Hérna á Íslandi er ég aldrei hrædd um að einhver sé að elta mig, jafnvel þótt ég sé seint á ferðinni. Ég þarf ekki að óttast að einhver ráðist á mig, drepi mig. Í Grikklandi, þar mun það gerast. Það verður ráðist á mig. Fyrr eða síðar, ég veit það. Ég sá það gerast,“ segir hún og útskýrir nánar hvað hún á við:

„Ég var með vinkonum mínum í garði í Aþenu, að spjalla og hanga. Skammt frá okkur var maður að tala í síma, við veittum honum svo sem enga sérstaka athygli. En við sáum þegar að annar maður, sem huldi andlit sitt með grímu, kom aftan að þeim sem var að tala í símann og réðst á hann með hnífi, stinga hann. Við hlupum í burtu eins hratt og við gátum, dauðhræddar um að hann myndi ráðast á okkur líka. Ég veit ekki hver hringdi á lögregluna en hún kom og flutti manninn á sjúkrahús og ég veit ekki hvernig honum reiddi af. Ég heyrði frá vinkonu minni að lögreglan hefði ekki fundið árásarmanninn. Eftir þetta var ég alltaf viss um að einhver væri fyrir aftan mig, elti mig. Ég get ekki gleymt þessu.“

Gífurlegur stuðningur skólafélaga

Zainab er nemandi í Hagaskóla og þar hefur mál hennar og fjölskyldu ekki látið neinn ósnortin, hvort sem um er að ræða skólafélaga, foreldra þeirra eða kennara. Skólafélagar Zainab hafa barist af sérstaklega mikilli hörku gegn yfirvofandi brottvísun hennar.

Þeir hafa til að mynda í tvígang staðið fyrir undirskriftasöfnun gegn brottvísuninni og afhent Útlendingastofnun, auk þess að útbúa stuðningsmyndbönd fyrir hana.

Í skólanum hefur hún eignast ótrúlegan fjölda vina og kunningja, sem var ekki raunin í Grikklandi. Amir bróðir hennar hefur á sama tíma gengið í Grandaskóla og líkað vel. Zainab segist afar glöð með stuðning skólafélaga sinna og að hún sé mjög ánægð í Hagaskóla. Þar séu kennararnir alltaf reiðubúnir til að aðstoða og sýna umhyggju.

Zainab segist hafa fengið mikinn fjölda skilaboða með stuðningskveðjum þar sem vinir hennar hafi sagt svo margt fallegt sem hafi glatt hana óskaplega mikið. Vinir Zainab segjast ætla að gera allt sem til þurfi svo að Zainab og fjölskylda hennar fái að vera áfram hér á landi. Hún er með skýr skilaboð til vina sinna:

„Mig langar til að þakka þeim öllum fyrir að hafa stutt mig og fyrir hvað þau hafa hjálpað mér ótrúlega mikið. Takk öll, vinir mínir.“

Margt stendur upp úr á þeim tíu mánuðum sem Zainab hefur dvalið hérlendis en magnaðast þykir henni þó þegar skólafélagar hennar Hagaskóla gengu fylktu liði úr skólanum í mars síðastliðnum að húsnæði kærunefndar útlendingamála. Þar var ákvörðun nefndarinnar um að staðfesta höfnun Útlendingastofnunar á því að taka mál Safari-fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar mótmælt. Förinni var síðan heitið í dómsmálaráðuneytið þar sem börnin afhentu hátt í 6.000 undirskriftir til stuðnings skólasystur sinni og fjölskyldu hennar.

„Þegar að kennararnir mínir sögðu mér að ég ætti að ganga með 600 manns, skólafélögum mínum, frá Hagaskóla og niður í bæ að ráðuneytinu fékk ég næstum því áfall, ég trúði því ekki. Ég átti bara ekki von á þessu, að 600 unglingar væru tilbúnir að gera þetta fyrir mig. Ég var feimin þegar ég lagði af stað en eftir því sem á gönguna leið þá fór ég að brosa og hlæja, ég réði ekki við mig, ég trúði þessu varla og vinir mínir urðu að sannfæra mig um að þetta væri raunverulegt. 600 manns voru þarna mér til stuðnings.“

Trúir því ekki að þau verði flutt úr landi

Um ákvörðun yfirvalda um að vísa fjölskyldunni úr landi segir Zainab:

„Ég á eiginlega engin orð yfir þetta. Eða jú. Ein vinkona mín sagði við mig þegar ég var að segja henni frá ákvörðuninni um að vísa okkur úr landi: „Hvernig geta þau sofið vært með þetta á samviskunni, vitandi hvernig ástandið í Grikklandi er? Þau vita að Grikkland er ekki öruggt. Hvernig geta þau sofið, hvers vegna sjá þau ekki að þetta er rangt? Þetta fólk á líka fjölskyldur og ef að hlutverkunum væri snúið við, ef þau hefðu flúið frá Afganistan og það ætti að senda þau frá Íslandi til Grikklands í yfirfullar flóttamannabúðir, hvernig myndi þeim þá líða?“ Ég veit ekki hvernig þeim myndi líða. Ég segi bara eins og vinkona mín, hvernig geta þau sofið vært? En kannski sofa þau bara vært, vegna þess að þeim er alveg sama?“

Þrátt fyrir að útlitið sé svart vill Zainab ekki trúa því að fjölskyldan hennar verði send úr landi. „Ef við verðum flutt úr landi þá eigum við okkur enga framtíð, hvorki ég né bróðir minn. Ef við fáum að vera hér áfram, þá er framtíð mín, og okkar, hins vegar björt. Mig langar til að verða læknir, eða kennari, og vinir mínir segja að ég geti orðið hvað sem ég vil verða ef ég fæ að vera hér á Íslandi áfram. Ég vil bara fá að búa hér allt mitt líf og gera eitthvað gott fyrir samfélagið, eitthvert gagn. Ég mun gera það, ef ég bara fæ að vera hér. Ég trúi því ekki að við verðum flutt úr landi, bara trúi því ekki. Hjarta mitt segir mér að ég hljóti að fá að vera hér.“

Umfjöllun Stundarinnar um málið í heild má lesa hér.