„yfirlýsing í ljósi umræðu um kílómetrastöðu bíla“

Viðskiptavinir Hölds – Bílaleigu Akureyrar, geta treyst því að bílar fyrirtækisins eru traustir og áreiðanlegir bílar og að ekki hefur verið átt við kílómetramæla þeirra á nokkurn hátt hvorki innan þess tíma sem bifreiðin er notuð til útleigu, né að þeim tíma loknum þegar komið er að sölu. Allar útleigur og kílómetrastöður eru rekjanlegar hjá fyrirtækinu og því hægur vandi að sannreyna það.  Bílarnir eru undir traustu eftirliti bifvélavirkja og í raun betur haldið við en mörgum  einkabifreiðum, og ef eitthvað bilar eða bjátar á, þá er það lagað strax.  Viðskiptavinir okkar eiga einungis að fá bíla sem standast allar öryggiskröfur og eru  í 100% lagi.  Áður en bílar fyrirtækisins fara í sölu eru þeir  yfirfarnir af bifvélavirkjum fyrirtækisins.

Við lifum á því að eiga endurtekin viðskipti við okkar traustu viðskiptavini og þeir koma aftur og aftur af því þeir eru ánægðir með viðskiptin við okkur.  Afsláttur frá gæðum bitnar ávallt á framtíðarviðskiptum og það viljum við ekki.

Höldur ehf – Bílaleiga Akureyrar rekur eina stærstu bílaleigu landsins og er leyfishafi  Europcar á Íslandi, en Europcar er ein af stærstu bílaleigukeðjum heims.  Þátttaka í slíku samstarfi setur okkur ákveðnar kröfur sem við þurfum að uppfylla alla daga.

Höldur – Bílaleiga Akureyrar er eina bílaleiga landsins sem er með gæðavottun samkvæmt ISO staðli 9001 og umhverfisvottun samkvæmt ISO staðli 14001.  Sem slíkt þá er fyrirtækið tekið reglulega út af viðurkenndum vottunaraðilum þar sem öll starfsemin er undir.  Að auki er Höldur – Bílaleiga Akureyrar einn af stofnaðilum Vakans, gæða og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar.  Þá hefur Höldur hlotið Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2013 og menntaverðlaun Samtaka Atvinnulífsins 2019.  Markmið okkar er ávallt að gera eins vel við viðskiptavini fyrirtækisins og hægt er og veita þeim bestu mögulegu þjónustu.  Við þjálfum starfsfólk okkar með það í huga og einkunnarorð okkar eru: Þínar þarfir – okkar þjónusta.