Y-kynslóðin fer heim klukkan fimm

Sigrún Þorleifsdóttir, ráðgjafi og fyrrum mannauðsstjóri Vífilfells, er í mjög fróðlegu viðtali við Jón G. Hauksson í kvöld um Y-kynslóðina svonefndu. Þessi kynslóð er ca. á aldrinum 20 til 45 ára. Hún leggur miklu meiri áherslu á frítímann heldur en fyrri kynslóðir og líf hennar gengur ekki bara út á að vinna. Á meðan eldri kynslóðir „lifðu til að vinna“ og höfðu það mottó að vinnan göfgaði manninn þá segist Y-kynslóðin „vinna til að lifa lífinu“. Þetta er sömuleiðis kynslóð sem er með mjög marga bolta á lofti. Hún vill styttri vinnutíma en óskar á sama tíma eftir því að fá hærri laun. Það næst væntanlega ekki nema hún skapi meiri verðmæti á styttri tíma en áður. Hún fer heim klukkan fimm á daginn vegna þess að þá hefst frítíminn. Hún horfir á vinnuna út frá verkefnum sem þurfi að klára en ekki fjölda vinnustunda. Hún hefur sömuleiðis minna þol gagnvart leiðinlegum verkefnum í vinnunni á meðan fyrri kynslóðir létu sig svona meira hafa það í vinnunni; þótt gleðinni væri kannski ekki alltaf fyrir að fara. En þrátt fyrir nýjar hugsjónir og hræringar í viðhorfum þá hefur umræðan um kulnun og vanlíðan á vinnustöðum sjaldan verið meiri en á undanförnum árum. Fróðlegt og skemmtilegt umræðuefni.