Vonar að ekki komi til verkfalla

 

VR, Efling, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur slitu í gær viðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna kjaradeilu þeirra og hófu undirbúning að sameiginlegum verkfallsaðgerðum. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segist vonast eftir því að ekki komi til verkfalla. Morgunblaðið greinir frá.

Halldór Benjamín segir í samtali við Morgunblaðið að viðræðuslitin og undirbúningur atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun sé alvarlegur hlutur sem feli í sér verulegan þjóðhagslegan kostnað, jafnvel þótt verkföll séu ekki hafin. „Það að slíta viðræðum er fyrsta skrefið til þess að hefja verkfallsaðgerðir, sem eru allra tap í samfélaginu og draga úr getu atvinnurekenda og fyrirtækja í landinu til að standa undir sjálfbærum launahækkunum til framtíðar. Auðvitað vona ég að til þessara aðgerða komi ekki. Það er mikið í húfi að geta afstýrt þeim, en jafnvel þó að viðræðum hafi verið slitið fer verkefnið ekki frá okkur. Við munum þurfa að hittast aftur fyrir atbeina ríkissáttasemjara og halda áfram viðræðunum þar sem frá var horfið. Það liggur hins vegar fyrir að það ber mikið í milli,“ segir Halldór Benjamín.

Halldór Benjamín segir að tilboð SA markist af því rými sem fyrirtækin í landinu geti staðið undir á næstu árum. „Og við förum fram úr því að okkar viti. Hver næstu skref í deilunni verða þarf tíminn að leiða í ljós en eftir sem áður halda áfram viðræður okkar við aðra viðsemjendur, SGS á vettvangi ríkissáttasemjara, eins og var viðbúið að myndi gerast á þessum dögum, og eins samflot iðnaðarmanna og Landssambands verslunarmanna. Í þeim viðræðum er fullur hugur beggja vegna borðs að klára gerð kjarasamnings og byggja í þeim samningi undir frekari lífskjarabót launamanna.“

Verkalýðsfélögin fjögur hafa sagst vera þessu innilega ósammála, að tilboð SA hafi verið með öllu óásættanlegt og því hafi viðræðum verið slitið og undirbúningur verkfallsaðgerða hafist.