Sjóðirnir kaupa alltaf á sama tíma

Forkaupsréttur ríkisins á hlutum í Arion banka hefur nokkuð verið í umræðunni og þá kannski einkum í sölum Alþingis. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu á fjármálafyrirtækjum, svo það myndi óneitanlega skjóta skökku við ef ríkið væri að bæta þriðja viðskiptabankanum í eignasafnið. En ekki eru allir þeirrar skoðunar og telja að ríkissjóður sé að láta mikilvægt tækifæri úr greipum ganga og láti um leið erlenda vogunarsjóði hafa sig að fífli. Grundvallarspurning er þó hvort forkaupsréttur ríkisins hafi í raun virkjast í þau tvö skipti sem viðskipti hafa verið með hluti í Arion banka, í ár og á sama tíma í fyrra. Með eins árs millibili hafa viðskipti með stóra hluti átt sér stað í bankanum degi fyrir birtingu ársuppgjörs. Í bæði skiptin hefur viðskiptaverðið verið yfir viðmiðunarmörkum forkaupsréttarins, sem er 80% af eiginfjárgrunni, miðað við 9 mánaða stöðu. Aðra sögu er að segja þegar miðað er við eiginfjárstöðu bankans um áramót samkvæmt endanlegu og endurskoðuð ársuppgjöri. Það er ekki að ósekju sem lítið traust er almennt borið til vogunarsjóða enda fara hagsmunir þeirra sjaldnast saman við samfélagslega hagsmuni. Ítrekuð viðskipti þeirra með hlutabréf í Arion banka degi fyrir birtingu uppgjöra er ekki til að auka það traust. Á flestum þróuðum mörkuðum eru settar hömlur á viðskipti tengdra aðila með hlutabréf skömmu fyrir birtingu uppgjöra og ekki að ástæðulausu. Viðskipti vogunarsjóðanna degi fyrir birtingu uppgjöra þar sem verð er miðað við þróun eigin fjár sem fyrirsjáanlegt er að muni hækka, fara væntanlega ekki á svig við nein lög eða reglur. Þær lýsa hins vegar ákveðnu viðhorfi sem felst í því að ganga eins langt og kostur er í að maka krókinn. Myndu margir velja sér slíka meðfjárfesta?