Vill þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann

Vill þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann

Þann 11. apríl lagði Inga Sæland fram þingsályktunartillögu um að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um innleiðingu þriðja orkupakkans. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag gerir hún frekari grein fyrir tillögu sinni og hvernig hægt væri að framkvæma atkvæðagreiðsluna.

Þar segir Inga ekki loku fyrir það skotið að vísa málinu til þjóðarinnar: „Fimmtudaginn 11. apríl var dreift í þinginu þingsályktunartillögu minni um að hugsanleg innleiðing þriðja orkupakkans fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt lögum um slíkar atkvæðagreiðslur. Í þeirri atkvæðagreiðslu fengi þjóðin tækifæri til að láta afstöðu sína í ljós við Alþingi sem síðan gæti haft vilja þjóðarinnar til hliðsjónar við endanlega afgreiðslu þingmála sem snúa að þriðja orkupakkanum.“

Hún vill að eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni: „Vilt þú að Alþingi heimili ríkisstjórn Íslands að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017, frá 5. maí 2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn (þriðji orkupakkinn) og aflétta stjórnskipulegum fyrirvara?“ Svörin sem yrðu í boði væru svo einfaldlega „Já“ og „Nei.“

Inga segir að jafnvel væri hægt að kjósa um málið í sumar. „Samkvæmt 4. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna skal þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á Alþingi. Þannig yrði hægt að kjósa um þetta mál í sumar og vilji meirihluta þjóðarinnar í þessu mikla og umdeilda máli lægi ljós fyrir þegar þing kæmi saman í sumarlok,“ skrifar hún.

Nýjast