Vill að ísland fordæmi bandaríkin

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að Íslendingar verði að bregðast við stefnu Bandaríkjastjórnar um að aðskilja börn frá foreldrum sínum við landamæri Bandríkjanna. Íslendingar ættu að fordæma þá opinberlega. Logi hefur óskað eftir fundi í utanríkismálanefnd Alþingis. 

Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2, hvar hann sagði að Íslendingar gefi sig út fyrir að vera þjóð sem hafi í heiðri réttindi barna og flóttafólks: „Og þó að við getum eflaust gert betur þá er bara nauðsynlegt að Ísland láti í sér heyra. Utanríkismálanefnd getur falið utanríkisráðherra að rannsaka alþjóðleg tilfelli og beita sér gegn þeim og álykta. Við getum beitt okkur í gegnum Nato og við getum líka nýtt okkur mannréttindaráðið sem núna fundar í Genf þó svo að Bandaríkjamenn hafi því miður sagt sig úr því í gær. Við erum að horfa upp á frekar ljóta þróun víða, ekki bara í Bandaríkjunum líka meðal nágrannaríkja okkar, og það er mjög brýnt að Ísland stígi fast til jarðar og láti í sér heyra,“ sagði Logi á Rás 2.

Logi vill að utanríkismálanefnd komi saman eins fljótt og hægt er, mjög líklega á mánudaginn.