Vilja kanna hvort flugeldar séu eina orsökin

Jón Ingi Sigvaldason, markaðs- og sölustjóri Landsbjargar, segir að björgunarsveitirnar stefni á óbreytta flugeldasölu um áramót, þrátt fyrir heitar umræður um loftmengun um síðustu áramót. Landsbjörg fari eftir settum reglum og selji aðeins CE-vottaða flugelda. Pep-flugeldar verða með 43 tonn af flugeldum til sölu og segja þá í samræmi við reglugerðir. Landsbjörg reynir í samvinnu við sérfræðinga að komast að því hvort flugeldum sé einum um að kenna um mengunina um síðustu áramót. 
 

Mikil umræða var eftir síðustu áramót um mikla mengun af völdum flugelda. Metsala var í flugeldasölu og stillt veður sem gerði það að verkum að mengunin mældist mikil. Heilbrigðisfulltrúi hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sagði mengunina hafa farið fram úr svörtustu spám. 

Ýmsir sögðust í framhaldinu ekki ætla að kaupa flugelda og styrkja frekar björgunarsveitirnar með peningarframlagi eða lögðu til að almenn notkun þeirra yrði bönnuð.  

„Málmríkt, kolefnisríkt, brennisteinsríkt og klórríkt“ loft

Í skýrslu um svifryk um áramót sem Efnagreiningar hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands gerði, og birt var í vor, var gerð athugun á svifryksgildum dagana 29. desember 2017 til 2. janúar 2018. Í niðurstöðum hennar segir að veruleg aukning hafi verið á hlutfalli ýmissa málma í svifryki á Norðurhellu í Hafnarfirði um áramótin miðað við dagana á undan og eftir. Mælar annars staðar til dæmis í Reykjavík, sýni svipaða mynd málmamengunar, nema hvað styrkirnir nær hjarta borgarinnar hafi mælst hærri í takt við hærri svifryksstyrk.