Vilja ekki staðfesta hvort ríkasti maður bretlands hafi keypt fleiri jarðir á íslandi

Ríkasti maður Bretlands, auðkýfingurinn James Ratcliffe er einn umsvifamesti landeigandi á Íslandi. Hann hefur keypt tugi jarða á Norðausturlandi undanfarin ár í Vopnafirði og Þistilfirði þar sem er að finna laxveiðiár. Markmiðið var að eignast veiðirétt í laxveiðiám. Stundin greinir frá því að framkvæmdastjóri félaga sem halda utan um fjölda landareigna á Norðausturlandi getur ekki staðfest hvort Ratcliffe hafi keypt fleiri jarðir af viðskiptafélögum sínum. Á Stundinni kemur einnig fram að samstarfsmenn Ratcliffe hafi í febrúar tekið við stjórnarsætum í félögunum.

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri félaganna og Veiðiklúbbsins Strengs segir:

„Þetta tengist eignaskiptum á hlutabréfum að einhverju leyti. Þetta eru félög sem tengjast jörðum fyrir austan. Ég get ekki staðfest eða hrakið þetta. Þetta eru svolítið mörg félög og ég hreinlega man ekki hvernig þessu var stillt upp.“

Þá kemur fram að Jóhannes Kristinsson, áður kenndur við Fons og Iceland Express, hafi selt Ratcliffe félagið Grænaþing og þannig eignast 86,67% hlut í Veiðiklúbbnum Streng en því fylgir veiðiréttur í Selá og Hofsá í Vopnafirði.

Með kaupum undanfarið hefur Ratcliffe aukið hlut sinn í jörðum fyrir austan verulega. Þá hefur Stundin einnig fjallað ítarlega um verkefni Ineos, sem er fyrirtæki Ratcliffe á sviði olíu og gasiðnaðar og þá hvernig hann hefur í krafti auðs fengið sínu fram gagnvart stjórnvöldum og stéttarfélögum. Ratcliffe er einnig maðurinn sem keypti Grímsstaði á Fjöllum en margir ættu að muna þegar kínverska auðmanninum Huang Nubo var meinað að kaupa jörðina til að stofna golf og ferðamannaparadís.

Þá hefur áður verið greint frá því á Hringbraut að Ratcliffe hyggðist flytja lögheimili sitt til Mónakó til þess að sleppa við 4 milljarða punda í skattgreiðslur. Þá kom einnig fram á Hringbraut síðasta haust að Ratcliffe hefði keypt hluta af jörð af Þórunni Egilsdóttur, þingflokksformanni Framsóknarflokksins en hún hafði hvatt til þess á þingi að strangari reglur myndu gilda um erlent eignarhald á jörðum.