Vilhjálmur illur: nánast öll sjávarþorp orðið fyrir barðinu á græðgisvæðingu kvótakerfisins

Það er þyngra en tárum taki að horfa uppá hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur skilið eftir sig slóð eyðileggingar vítt og breitt um hinar dreifðu byggðir þessa lands. Nánast öll sjávarþorp og bæir hafa orðið fyrir barðinu á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Öll vitum við hvernig einstaka útgerðarmenn hafa í gegnum árin og áratugina ekki vílað fyrir sér að selja kvótann frá sér og labba í burtu með jafnvel milljarða króna í vasanum.

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness og varaforseti ASÍ í pistli sem birtur er á Hringbraut.is. Í pistlinum gagnrýnir Vilhjálmur harðlega bæði útgerðarmenn og svo stjórnmálamenn. Vilhjálmur segir útgerðarmenn ekki hika við að skilja fólk og heilu sveitarfélögin eftir í sárum og bjargarlaus, með því að kippa í burtu á einni nóttu, lífsviðurværi fólks. Vilhjálmur segir:

„Eins og áður sagði eru fjölmörg þorp og sveitarfélög á landsbyggðinni sem hafa lent í klónum á græðgisvæðingunni í kringum framsalið á aflaheimildum og sum þessara sveitarfélaga hafa ekki enn jafnað sig eftir að allur kvótinn hafði verið tekin í burtu í skjóli græðginnar.“

Þá gagnrýnir Vilhjálmur stjórnmálamenn fyrir að grípa ekki í taumana.

„Það er svo sorglegt að stjórnmálamenn skuli láta þessa hluti átölulaust enda er skýrt kveðið á í 1 gr. laga um stjórn fiskveiða að nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu,“ segir Vilhjálmur og bætir við:

„Takið eftir, tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu! Hvað skildu útgerðarmenn vera oft búnir að kolbrjóta þessa lagagrein? Mér er mjög hugleikið hvernig farið hefur verið með okkur Akurnesinga hvað þetta varðar, en ítreka að fjölmörg önnur sveitarfélög hafa einnig farið gríðarlega illa út úr þessu kerfi.“

Þá spyr Vilhjálmur hvar samfélagsleg ábyrgð útgerðarmanna sé og bendir á um leið að fyrir 25 árum hafi um 9.600 manns starfað í fiskvinnslu. Sú tala var árið 2018 komin niður í 2900. Það þýðir að störfum hafi fækkað um tæplega sjöþúsund á 25 árum. Þar sé ekki einungis hægt að kenna tækniframförum um, þar hafi samþjöppun á aflaheimildum gríðarleg áhrif. Vilhjálmur segir:

„Einnig er með algjörum ólíkindum að við skulum heimila að verið sé að flytja 42 þúsund tonn af óunnum fiski erlendis. Rifjum upp aftur 1. gr. laga um stjórn fiskveiða en þar segir: „hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“

Er verið að tryggja trausta atvinnu og byggð í landinu með því að flytja 42 þúsund tonn óunninn á erlenda markaði? Nei, að sjálfsögðu ekki og ljóst að ef þessi 42 þúsund tonn yrði unnin hér á landi væri hægt að skapa hundruð fiskvinnslustörf fólkinu og sveitarfélögunum til mikilla hagsbóta.“

Vilhjálmur bendir einnig á að fram til september 2008 var svokallað útflutningsálag uppá 10% á allan fisk sem var sendur óunninn úr landi. Það þýddi að ef útgerð flutti 100 tonn af óunnum fiski erlendis þurfti útgerðin að leggja 10 tonn í svokallað refsiálag.

„Þetta útflutningsálag var til að verja störfin vítt og breitt um landið tryggja atvinnu fólksins og sveitarfélögunum til hagsbóta, en á óskiljanlegan hátt var þetta álag fellt á brott í september 2008 af stjórnmálaflokkum sem horfa fyrst og fremst á sérhagsmuni heldur heildarhagsmuni,“

segir Vilhjálmur og bætir við að lokum:

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að það verður að kalla eftir endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða eins og stjórnmálamenn tala um í hvert sinn sem útgerðarmenn skilja eftir sig blóðuga slóð í hverju sveitarfélaginu vítt og breitt um landið með tilheyrandi atvinnumissi, en þetta gaspur stjórnmálamanna varir rétt í nokkra daga og svo er allt gleymt!

Þetta er óþolandi staða, en það fyrsta sem Alþingi getur gert er að koma á þessu 10% útflutningsálagi þannig að ekki sé verið að flytja atvinnu frá landinu til annarra landa. Við eigum að nýta allar okkar auðlindir til atvinnuuppbyggingar og atvinnusköpunar en það gerum við ekki með því að flytja 42 þúsund tonn af óunnum fiski erlendis.“

Hér má lesa pistilinn í heild sinni.