Vigdísarholt mun reka nýtt hjúkrunarheimili

Vigdísarholt mun reka nýja hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi. Viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð af Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og forsvarsaðilum Vigdísarholts í dag. Vigdísarholt mun einnig taka að sér rekstur níu dagdvalarrýma í bæjarfélaginu og er stefnt að umtalsverðri fjölgun þeirra. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Rekstur 40 hjúkrunarrýma tryggður

Samkvæmt viljayfirlýsingunni tryggir heilbrigðisráðuneytið greiðslur fyrir rekstri 40 hjúkrunarrýma af hálfu Sjúkratrygginga Íslands frá 1. febrúar næstkomandi og mun Seltjarnarnesbær afhenda hjúkrunarheimilið fullfrágengið og fullinnréttað til rekstrar fyrir þann tíma. Þó geti það tekið allt að þrjá mánuði að koma heimilinu í fullan rekstur þannig að öll hjúkrunarrými verði fullnýtt, en allt kapp verður lagt á að taka heimilið í notkun eins fljótt og kostur er að sögn Steingríms Ara Arasonar, formanns stjórnar Vigdísarholts og fyrrverandi forstjóra Sjúkratrygginga Íslands. Segir hann vonir standa til um að hægt verði að taka við fyrstu heimilismönnunum í byrjun apríl.

Heilbrigðisráðherra segir það vera fagnaðarefni að með þessu hafi verið eytt þeirri óvissu um rekstur heimilisins sem skapaðist þegar ljóst varð að Seltjarnarnesbær myndi ekki axla samningsbundna ábyrgð sína á rekstri þess: „Ég hef lagt alla áherslu á að tryggja opnun heimilisins um leið og það er tilbúið til reksturs, því hver dagur er dýrmætur í þessum efnum. Tafarlaus opnun þessa hjúkrunarheimilis er eitt af því sem sérstaklega er nefnt í hlutaúttekt Embættis landlæknis til að bregðast við alvarlegri stöðu á bráðamóttöku Landspítalans“, segir ráðherra.

Vigdísarholt í eigu ríkisins

Vigdísarholt er einkahlutafélag í eigu ríkisins. Félagið rekur einnig hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi undir stjórn Kristjáns Sigurðssonar sem er framkvæmdastjóri Vigdísarholts og mun einnig stýra rekstri heimilisins á Seltjarnarnesi. Horft er til samlegðaráhrifa í þessu sambandi með góða þjónustu og samnýtingu að leiðarljósi.