Vigdís: „nú þegar hefur málinu verið vísað til umboðsmanns barna“

„Í 14. gr. barnasáttmála sameinuðu þjóðanna segir að aðildarríki skulu virða rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. Inngrip Reykjavíkurborgar í sumarvinnu ólögráða barna í Vinnuskólanum þar sem þeim var „boðið“ að taka þátt í mótmælum og gerð mótmælaspjalda er lagalega vafasöm. Að okkar mati er Vinnuskólinn kominn langt út fyrir sitt lögbundna hlutverk.“ Þetta segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.

Vigdís hefur gagnrýnt ákvörðun Vinnuskólans í Reykjavík að leyfa börnum að velja á milli þess að vinna eða taka þátt í mótmælum vegna loftlagsmála. Segir Vigdís að málinu hafi nú verið vísað til umboðsmanna barna.

„Nú þegar hefur málinu verið vísað til umboðsmanns barna. Yfirmönnum Vinnuskólans mátti vera ljóst að þessar aðgerðir yrðu afar umdeilanlegar hjá foreldrum og forráðamönnum. Samt var farið í þessar aðgerðir með börnunum á vinnutíma þeirra. Í umræðunni og á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur sem haldinn var 3. júlí s.l. um að verkefnið væri framhald á mótmælum sem áttu sér stað í vetur þegar ólögráða börn, sem hafa skólaskyldu samkvæmt lögum, mættu á Austurvöll til mótmæla.

Þessar aðgerðir Vinnuskólans eru pólitískt drifnar og voru ekki lagðar fyrir umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkur til kynningar, samþykktar eða synjunar. Vinnuskóli Reykjavíkur heyrir umdir ráðið. Fulltrúar minnihlutans í ráðinu sjá sér ekki annað fært en að senda þetta erindi til félagsmálaráðuneytisins, sem fer með málefni barna, til úrskurðar um lögmæti aktívistaaðgerða Vinnuskólans,“ segir Vigdís

Vigdís hefur nú krafist þess af Vinnuskóla Reykjavíkur að gefa upp hversu mörg börn tóku þátt í mótmælunum.