Viðmælandinn reyndist pabbi leikmanns

Fámenni íslands kom enn og aftur í ljós þegar fréttamaður kínverskrar fréttastofu á HM í Rússlandi sneri sér að einum áhangenda íslenska karlalandsliðsins á götum úti í Moskvu fyrir leik Íslands gegn tvöföldum heimsmeisturum Argentínu á laugardag.

Ekki var langt liðið á spjallið þegar í ljós kom að þar var kominn faðir eins af landsliðsstrákunum, nánar til tekið Guðmundur Örn Jóhannsson, faðir Jóhanns Bergs, hins frækna kantmanns liðsins.

Enda þótt tilvik sem þessi séu hversdagsleg heima á Íslandi og enginn kippi sér upp við tengsl af þessu tagi mun spyrillinn heldur betur hafa orðið hissa og fundist hann vera kominn í feitt í fréttalegu tilliti.

Og svo er auðvitað rétt að geta þess að umræddur Guðmundur er sjónvarpsstjóri Hringbrautar, en augljóslega kominn í frí í austurvegi.