Viðar: „algjör svívirða“

Icelanda­ir hót­el ákváðu að draga laun af öll­um þeim starfs­mönn­um sem vinna störf sem féllu und­ir verk­fallsaðgerðir Eflingar og VR í mars. Ákvörðunin var tekin óháð því hvort viðkom­andi starfs­menn hefðu verið á vakt á þeim dögum sem verk­fallsaðgerðirn­ar fóru fram. Framkvæmdastjóri Eflingar segir þetta algjöra svívirðu.

„Við feng­um strax fólk til okk­ar í síðustu viku og við vor­um í smá­stund að átta okk­ur á því að þetta væri ekki bara ein­hver ein­stak­lings­bund­in til­vik, held­ur að fyr­ir­tækið hefði tekið þessa stefnu gagn­vart öll­um starfs­mönn­um,“ seg­ir Viðar Þor­steins­son fram­kvæmda­stjóri Efl­ing­ar í sam­tali við mbl.is.

Tveggja daga laun voru dreg­in af starfsmönn­um vegna verk­fallsaðgerðanna 8. mars og 22. mars, óháð því hvort þeir voru á vakt eður ei. Viðar segir að þetta sé „al­gjör sví­v­irða“ að mati stéttarfélagsins.

Hann veit ekki til þess að fleiri at­vinnu­rek­end­ur hafi haft þenn­an hátt­inn á. „Þetta er eina til­vikið sem ég veit um, þar sem að fyr­ir­tæki hef­ur gert þetta sem einhverja vísvitandi stefnu. Þetta er að okk­ar mati til há­bor­inn­ar skamm­ar og fólk hef­ur komið hérna til okk­ar, starfs­menn, í öng­um sín­um.“

Icelandair hótel telja aðgerðina lögum samkvæmt

Í samtali við RÚV segir Magnea Þórey Hjálm­ars­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Icelanda­ir hót­ela, að búið hafi verið að staðfesta að fé­lags­menn stétt­ar­fé­laganna tveggja gætu sótt launagreiðslu fyr­ir dagana tvo í verk­falls­sjóði fé­lag­anna. Hún seg­ir að fyrirtækið telji þenn­an frádrátt vera lög­um sam­kvæmt.

Viðar gefur lítið fyrir þessar skýringar Icelandair hótela. „Það er bara ótrú­legt, því að við höf­um aldrei gefið það til kynna að við ætluðum að greiða fólki verk­falls­styrk sem að fór ekki í verk­fall. Hvers vegna í ósköp­un­um ætt­um við að gera það? Mér þykja þetta ótrú­verðugar efti­r­á­skýr­ing­ar fyr­ir­tæk­is­ins,“ seg­ir hann og ít­rek­ar að það sé til háborinn­ar skamm­ar að einn stærsti atvinnurek­and­inn í hót­el­geir­an­um viðhafi slík vinnu­brögð.

Hóta að fara með málið fyrir dóm

Efling sendi frá sér yfirlýsingu vegna málsins, þar sem skorað er á hótelkeðjuna að leiðrétta þennan frádrátt tafarlaust. Ef ekki verður orðið við kröfu Eflingar um að Icelandair hótel greiði starfsmönnum sem ekki voru á vakt laun, hyggst stéttarfélagið fara með málið fyrir dóm.

Yfirlýsing Eflingar í heild sinni:

„Efling - stéttarfélag fordæmir harðlega þá ákvörðun IcelandAir Hotels að draga laun af starfsmönnum vegna verkfalla sem þeir tóku ekki þátt í. Efling skorar jafnframt á hótelkeðjuna að leiðrétta mistökin tafarlaust. Hótelkeðjunni ber að bæta starfsmönnum upp launamissi ásamt með dráttarvöxtum og veita þeim jafnframt afsökunarbeiðni.

Efling hafnar alfarið tilraunum hótelkeðjunnar til að skjóta sér undan ábyrgð á málinu. Fulltrúi keðjunnar hefur hermt upp á starfsmenn að þeir hafi sagst eiga rétt á greiðslum úr vinnudeilusjóði þótt þeir hafi ekki verið við störf. Slíkt á sér enga stoð í veruleikanum. Efling gaf út ítarlegar skriflegar leiðbeiningar um rétt á greiðslum úr vinnudeilusjóðum og þar kemur slíkt hvergi fram. Skýringar hótelsins standast því enga skoðun og eru yfirklór.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar segir þetta svívirðilega framkomu. „Það er verið að hafa laun upp á 12-25 þúsund krónur af fólki sem er á lægstu laununum. Það er hreint með ólíkindum að hótelkeðjan skuli grípa til þessara ráðstafana og við munum bregðast við af fullri hörku.“

Efling mun gera kröfu á IcelandAir Hotels að greiða starfsmönnunum sem ekki voru á vakt laun, ef ekki verður orðið við henni verður farið með málið fyrir dóm.“