Verkfall hefst á miðnætti

Verkfall hjá starfsfólki 40 hótela og hjá hópbifreiðafyrirtækjum hefst 22. mars og stendur frá miðnætti til miðnættis. Verkfallið tekur til rúmlega 2.000 félagsmanna Eflingar og VR.

Í tilkynningu frá Eflingu segir að hótelstarfsfólk muni safnast saman í svokallaðar kröfustöður við hótelin frá klukkan 8:00 til 18:30 til að sýna samstöðu og vekja athygli á kröfum sínum um virðingu, réttindi og betri kjör. Gengið verður á milli nærliggjandi hótela frá þremur stöðum; Austurvelli, Hilton Reykjavík Nordica og Hlemmi.

Þá verður einnig samstöðufundur rútubílstjóra í Vinabæ frá klukkan 12:00 til 17:00. Í Vinabæ verða bækistöðvar verkfallsvaktar og einnig verður tekið við umsóknum fyrir greiðslu úr vinnudeilusjóði.

Nú stendur yfir fundur milli Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness, Verkalýðs Grindavíkur og Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins í Karphúsinu. Náist einhver árangur á fundinum hjá ríkissáttasemjara í dag gæti verkföllum verið frestað. 

Náist hins vegar ekki samningar næstu daga eru verkfallsaðgerðir boðaðar í skorpum þar til allsherjarverkfall myndi skella á þann 1. maí næstkomandi.