Verður hreindýrstarfurinn skotinn?

10 árum eftir að víðáttumikil búsvæðum hreindýra var fórnað fyrir Kárahnúkaframkvæmdir eru dæmi um að hreindýr færi sig til og dúkki upp á nýjum svæðum. Júlíus Freyr Theódórsson, leiðsögumaður hjá Saga Travel, greinir frá því á fésbók í kvöld að hann hafi séð hreindýratarf skammt frá Dettifossi, vestan Jökulsár á Fjöllum. Hann birtir mynd af tarfinum máli sínu til sönnunar og gaf hringbraut.is góðfúslegt leyfi til að birta hana.

„Rakst á þennan einmana tarf í dag, það skrýtna við það er sú staðreynd að þetta er tekið vestan Jökulsár á fjöllum, ekki fjarri Dettifossi. Gaman að þessu, farþegarnir mínir froðufellandi af gleði,“ skrifar Júlíus.

Gleðin gæti þó varað stutt, því hugsanlegt er að hið opinbera hafi vegna sauðfjárveikivarna þá skyldu að láta fella svona dýr sem fara yfir markalínur.