Gunnar var aðeins 12 ára þegar báðir foreldrar voru látnir: „lífið var í hálfgerðri móðu, allt rennur í eitt“

Gunnar Smári Jóhannesson leikari hefur undanfarið flakkað um landið með sýningu sína Ómar Orðabelgur og sett hana upp fyrir börn á aldrinum fjögurra til sex ára. Leikritið var nýlega gagnrýnt fyrir efnistökin en það fjallar um orð og dauðann.

„Mér sárnaði svolítið að heyra þessa gagnrýni því þegar ég fór að hugsa þetta áttaði ég mig á því að dauðinn er oft til umfjöllunar í barnaefni,“ segir Gunnar Smári í viðtali við Snærósu Sindradóttur og Helgu Margréti Höskuldsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás tvö.

Sjálfur missti Gunnar faðir sinn þegar hann var aðeins sex ára gamall og við tólf ára aldur voru báðir foreldrar hans látnir.

„Ég vissi alveg hvað þetta þýddi. Ég vissi að það yrði ekki aftur snúið og að ég myndi aldrei hitta hann aftur. Það sem ég skildi hins vegar ekki var hvað það er að syrgja. Ég gerði það líka kannski ekki almennilega fyrr en ég var kominn yfir tvítugt. Ég sló þessu upp í grín þegar ég varð eldri en sem barn reyndi ég að gleyma þessu. Lífið var í hálfgerðri móðu, allt rennur í eitt.“

Fljótlega eftir andlát móður Gunnars sem lést þegar hann var aðeins tólf ára gamall missti hann einnig afa sinn og ömmu og dauðsföll nánustu fjölskyldumeðlima hans settu spor á æsku hans. Gunnar segist vilja opna umræðu um málið og að hann sé ekki reiður vegna gagnrýninnar.

Hann segir börn skilja meira heldur en að fullorðna fólkið áttar sig á og að dauðinn hafi reglulega verið tekinn fyrir í barnaefni í gegnum tíðina. Nefnir hann meðal annars Konung ljónanna, Jónatan Ljónshjarta og Ronju Ræningjadóttur sem öll fjölluðu um dauðann.

Í sýningu Gunnars er amma Ómars, aðalpersónunnar í leikritinu veik. Í kjölfarið fer Ómar að leita að skýringu á hugtökum veikinda hennar. Hann lendir í ævintýrum og lærir enn fleiri orð. Í lokin fá áhorfendur að vita að amma Ómars er í raun dáinn.

„Þau skilja að þetta sé leikrit og þau skilja líka að það á að sýna virðingu þegar einhver deyr. Þau vita miklu meira en við höldum.“