Valdi sér flokk lengst frá Ömma

Nýkjörni borgarfulltrúinn Pawel Bartoszek í Mannamáli:

Valdi sér flokk lengst frá Ömma

Hann mætti samviskusamlega á hverja kosningaskrifstofuna af annarri í höfuðborginni í aðdraganda alþingiskosninganna 1999 til að máta sig við allar þær stjórnmálastefnur sem voru í boði - og eftir 20 mínútna spjall við Ögmund Jónasson, þá þingmann VG, ákvað hann að ganga í flokkinn sem væri lengst frá skoðunum þess manns.

Með þessum hætti varð Pawel Bartoszek að þeim hægrimanni sem hann er í dag, en raunar skildu leiðir hans og Sjálfstæðisflokksins þegar Viðreisn var stofnuð, en þar var komin sú alþjóðlega og frjálslynda hægristefna sem hann er hvað hrifnastur af, nefnilega að gera markaðsdrifna hagkerfið á Íslandi samkeppnishæft við það besta sem þekkist í framsæknustu samfélögum veraldar.

Hann lítur á sig sem Íslending fremur en Pólverja, enda flutti hann hingað til lands átta ára gamall eftir að pabbi hans, tungumálasérfræðingurinn afréð að kafa ofan í þetta skrýtna tungumál útnárans - og svo fór að fjölskyldan settist að hér á landi, heldur óvön aðstæðum vestan járntjaldsins, en raunar fékk mamma Pawels matarsjokk þegar þau komu sér hér fyrir; í hennar huga var úrvalið af mat á Íslandi ekki neitt miðað við fjölbreytnina heima í kommúnistaríkinu Póllandi.

Hann lýsir því hvernig hann náði tökum á íslenskunni með því að tefla við krakkana í Melaskóla og svo hvernig hann varð að þeim stærðfræðinörd sem hann viðurkennir að hann sé í eðli sínu; stærðfræðikeppnir séu einfaldlega hans Eurovisjón og fátt þyki honum eins skemmtilegt og að lygna augunum aftur og reyna sig við nýtt dæmi.

Og þessi nýkjörni borgarfulltrúi ræðir líka um það sem hann ætlar að berjast fyrir í borgarstjórn; altso að gera Reykjavík að því aðdráttarafli fyrir ungt vel menntað fólk sem hún þarf að vera, eigi hún ekki að dragast aftur úr þeim heimsborgum sem ungir Íslendingar sækja nú í síauknum mæli til.

Mannamál er endursýnt í dag og einnig aðgengilegt á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.

Nýjast