Umskurður! á barnið að njóta vafans?

Ólík sjónarmið togast á þegar kemur að því hvort banna eigi umskurð drengja, segir framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands. Réttindi barna séu að þau fái sjálf að ákveða um ónauðsynlegar læknisaðgerðir - og þá þurfi einnig að virða rétt til trúfrelsis.

 

Þetta kemur fram í umfjölun ruv.is um málið, en þar segir að allt að þriðjungur drengja í heiminum séu umskornir. Í gyðingdómi sé gert að skilyrði að drengir séu umskornir og algengt sé meðal múslima að umskera. Frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur alþingismanns um bann við umskurði drengja, hafi vakið mikla athygli. Samtök gyðinga á Norðurlöndunum hafi sent íslenskum þingmönnum bréf þar sem þeir mótmæli frumvarpinu harðlega og segi það árás á gyðingdóminn þannig að það snerti gyðinga um allan heim. 

\"Nú er trúfrelsi mannréttindi, þú mátt trúa hverju því sem þú vilt,“ segir Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands í samtali við vefinn, en hún bætir við: \"En óneitanlega hljótum við samt að velta fyrir okkur hvort þetta sé hluti af trúfrelsi. Hvort það að breyta líkama barnanna þinna geti fallið fallið undir trúarskoðun eða trúfrelsi. Síðan kemur líka hið stóra álitamál og það er réttur barnsins. Við erum búin að innleiða í landslög Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og skv. honum eigum við alltaf að taka mið af því sem er barninu fyrir bestu. Og maður veltir fyrir sér hvort læknisfræðilegt inngrip, sem er í rauninni ónauðsynlegt, hvort það geti talist vera barninu fyrir bestu og hvort það geti ekki verið brot á sáttmálanum, plús hitt að það á alltaf að hafa barnið með í ráðum varðandi allt sem það varðar og það eigi að taka mið af aldri þess og þroska,“ segir Margrét.

Þá kunni umskurður drengja að vera brot á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og samningi gegn pyntingum.

Margrét kveðst í samtali við ruv.is ekki vita til þess að umskurður drengja hafi nokkurs staðar verið bannaður: \"En ég veit að það gekk dómur í Þýskalandi t.d. þar sem það var sagt að foreldri og samþykki foreldris fyrir umskurði dygði ekki til,“ segir Margrét við fréttavef ríkisins.