Ummæli ráðherra valda ólgu

Vandræði Ragnheiðar Elínar Árnadóttur ráðherra ferðamála og iðnaðar eru að hún hefur um of einblínt á þarfir stóriðnaðar en ekki hugað að hagsmunum ferðaþjónustunnar og þeirri náttúruvernd sem þarf að efla samhliða stórauknum straumi ferðamanna. Þetta segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands í samtali við Hringbraut.

Viðtal Helga Seljan við Ragnheiði Elínu í Kastljósi í gærkvöld vakti nokkra athygli og þá ekki síst vegna þeirra ummæla ráðherrans að það væri ekki lengur forgangsmál að standa fyrir lagasetningu um sértæka gjaldheimtu af ferðamönnum. Er þá vitnað til náttúrupassafrumvarps ráðherra sem dagaði uppi án stuðnings þingsins. Fram kom í Kastljósinu að Ragnheiður Elín hefur sem ráðherra ferðamála sætt mikilli gagnrýni undanfarið. Þingmenn Framsóknarflokksins hafa gagnrýnt að hún hafi ekki lagt fram frumvarp um gjaldtöku á ferðamannastöðum, eftir að tilraunir hennar til upptöku náttúrupassa strönduðu í þinginu fyrir ári. Spurð hvort ekki væri enn þörf á fjármagni til framkvæmda og styrkingar innviða eins og lögð var áhersla á þegar náttúrupassinn var lagður fram, sagði ráðherrann: „Við erum að fá mjög auknar skatttekjur af ferðaþjónustunni. Bara virðisaukaskattstekjur af neyslu ferðamanna jukust um 10 milljarða króna á milli áranna 2014 og 2015.\" Helgi Seljan spurði þá hvort hún teldi að sértækar aðgerðir eins og stóð til að afla með náttúrupassa væru þar með ekki lengur þarfar. \"Ég tel þetta ekki vera stóra forgangsmálið á mínu borði núna,\" svaraði ráðherra.

Flotið sofandi að feigðarósi?

Miklar umræður hafa orðið á Alþingi í vetur um það sem stjórnarandstaðan hefur kallað ófremdarástand. Er þar átt við að vegna fjölgunar ferðamanna víða um land en einkum þó á suðvesturhorninu séu innviðir og ýmsar náttúruperlur að láta undan. Ef tjón verður á náttúru Íslands og jafnvel óafturkræft hefur verið haldið fram að það sé ekki bara óábyrgt gagnvart landinu og komandi kynslóðum heldur sé ímynd landsins og orðspor sem ferðamannastaðar í hættu og geti vel farið svo að ferðamannastraumurinn stíflist ef landsmenn halda ekki vöku sinni, eins fljótt og hann opnaðist fyrir nokkrum árum.

\"Er þetta ekki einmitt það sem birtist okkur ef rráðamenn halda ekki vöku sinni?\" Segir Árni Finnsson.

Árni segir að ráðherrann hafi í kastljóssviðtalinu í gærkvöld nefnt fjárframlög í framkvæmdasjóð ferðamannastaða sem hafi ekki nýst. \"Hið rétta er að þessi framlög komu svo seint í fyrravor að mjög erfitt var fyrir sveitarfélög, Umhverfisstofnun eða friðlýst svæði að ráða aukastarfsmenn, skipuleggja uppbyggingu eða kosta það sem nauðsyn er á að byggja upp. Sem dæmi hafði flest sumarvinnufólk ráðið sig í vinnu þegar ríkisstjórnin bætti í.\"

Vandræði ráðherra


\"Vandræði Ragnheiðar Elínar eru að hún ætlaði fyrst og fremst að verða iðnaðarráðherra með stóriðjuverkefni í heimabæ sínum efst á forgangslista. Það tók hana nokkur misseri að átta sig á að uppbygging ferðaþjónustu og innviða ferðaþjónustu var og er langstærsta verkefnið á hennar borði,\" segir Árni Finnsson og liggur fyrir að ummæli ráðherra í gærkvöld hafa skapað mikla ólgu víða.

Árni nefnir þó sérstaklega að ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins \"væru jafn ósvífnir og þingmenn Framsóknarflokksins\" myndu þeir umsvifalaust benda á að frammistaða framsóknarráðherra í umhverfismálum væri ekkert til að hrópa húrra yfir heldur. En Ragnheiði Elínu virðist vera lífsins ómögulegt að skilja að fjárfesting í náttúruvernd, friðlýsingu svæða, aukinni landvörslu og svo framvegis jafngildir upbbyggingu innviða.\"

Fréttaskýring: Björn Þorláksson.