Sif lýsir ritskoðun á RÚV

Sif Sigmarsdóttir greinir frá því í pistli sínum í Heimildinni í dag að dagskrárstjóri Rásar 2 hafi árið 2014 hafnað pistli frá henni og beðið um annan pistil með öðru efni.

Viku fyrr hafði dagskrárstjórinn sett fram þá ósk að fá framvegis pistla hennar til samþykktar áður en þeir yrðu sendir út á öldum ljósvakans. Einhver titringur hafði orðið innan Framsóknarflokksins vegna þess að Sif skrifaði um andstöðu flokksins við byggingu mosku í Reykjavík.

Sif segist seinþreytt til vandræða og því hafi hún afhent dagskrárstjóranum næsta pistil til eftirlits. Hann kvað upp dóm sinn, tjáði Sif að hann væri „engin ritskoðunartýpa“ um leið og hann pantaði hjá henni nýjan pistil um annað efni. Sif hafði orðið það á að fjalla tvær vikur í röð um eitthvað sem tengdist Framsókn. Dagskrárstjóranum fannst óþarfi að fjalla um Framsóknarflokkinn tvær vikur í röð.

Sif nefnir ekki dagskrárstjórann í pistli sínum en um er að ræða Frank Hall, sem tók við stöðunni í apríl 2014. Í Vísi er haft eftir Frank að hann hafi tekið þessa ákvörðun í samráði við Bergstein Sigurðsson sem þá stýrði morgunútvarpi rásar 2. Sif hafi þó neitað að gefa sig með pistilinn og hann hafi því verið fluttur þrátt fyrir allt. Frank segir að ekki hafi verið um ritskoðun að ræða heldur ritstjórn.

Sif starfaði ekki sem fréttamaður á RÚV heldur var hún sjálfstæður pistlahöfundur þar, líkt og síðar á Fréttablaðinu og nú hjá Heimildinni. Sjálfstæðir pistlahöfundar heyra ekki undir ritstjórnarvald á fjölmiðlum enda eru þeir sérstaklega fengnir til að tjá skoðanir sínar. Sú skýring að um ritstjórn en ekki ritskoðun hafi verið að ræða er því fremur langsótt.