Býst jafnvel við netárásum í kringum leiðtogafundinn

Netöryggisfyrirtækið Syndis telur að gera megi ráð fyrir aukinni hættu á netárásum hér á landi dagana fyrir og á meðan leiðtogafundi Evrópuráðsins stendur. Fundurinn verður haldinn í Reykjavík dagana 16.-17. maí nk. Fjöldi erlendra þjóðarleiðtoga hefur staðfest komu sína til landsins.

Anton M. Egilsson, forstjóri Syndis, segir ljóst að óprúttnir aðilar gætu viljað nýta sér þennan fund til að valda usla með margs konar netárásum gegn íslenskum innviðum, stofnunum, og fyrirtækjum. Anton telur aukinn viðbúnað og undirbúning æskilegan til að draga úr líkum á alvarlegum atvikum eða rekstrarstöðvun innlendra aðila.

„Að okkar mati eru umtalsverðar líkur á mikilli aukningu á álagsárásum (DDoS) með það markmið að valda rofi á þjónustu innlendra aðila og því nauðsynlegt að vera undirbúin undir slíka útkomu eða aukningu á slíkum árásum. Möguleikar eru jafnframt fyrir hendi á aukningu á gagnagíslatökuárásum þar sem heilu netkerfin er tekin yfir af óprúttnum aðilum og fyrirtæki og stofnanir óstarfhæf með öllu,“ segir Anton.

Hann segir mikilvægt að íslensk fyrirtæki og stofnanir virki sín öryggisteymi og geri ráðstafanir til að efla öryggi sem og eftirlit með það markmið að draga úr líkum á hvers kyns netárásum og tryggja skjót viðbrögð eins og kostur er ef eitthvað kemur upp.

„Syndis starfrækir öryggisteymi (SOC) sem sinnir vöktun 24/7/365. Vikuna fyrir heimsóknina mun Syndis auka mönnun til að geta brugðist hratt og örugglega við. Til viðbótar fylgist öryggisteymi Syndis grannt með vísbendingum um sérsniðnar árásir (Threat Intelligence) í gegnum alþjóðlegt tengslanet fyrirtækisins. Til að mæta þeim fyrirspurnum sem Syndis hefur fengið höfum við sett saman þessa síðu um þær almennu aðgerðir sem vert er að huga að til að draga úr líkum á alvarlegum atvikum eða auka öryggi sérstaklega fyrir þennan atburð,“ segir Anton enn fremur.