Óttast að nýtt Lindarhvolshneyksli sé í uppsiglingu

Fjármálaráðherra hefur sett Söru Lind Guðbergsdóttur forstjóra Ríkiskaupa tímabundið frá 1. apríl til 31. ágúst, en Björgvin Víkingsson lét af störfum sem forstjóri um síðustu mánaðamót.

Hann hefur ráðið sig sem innkaupastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Bónuss og hefur störf á nýjum stað 1. maí næstkomandi.

Björgvin er með meistaragráðu í aðfangakeðjustjórnun frá ETH háskólanum í Zürich og B.Sc. gráðu í umhverfis- og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands. Hann hefur víðtæka reynslu af innkaupum og vörustjórnun hjá alþjóðlegum fyrirtækjum á borð við Maersk, Aasted Aps, DT Group og Marel hf. Enn fremur hefur Björgvin kennt vörustjórnun og stefnumarkandi innkaup við Háskólann í Reykjavík.

Sara Lind útskrifaðist með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands 2012, en skömmu áður en hún lauk prófi var hún ráðin í stjórnunarstöðu hjá VR. Sú ráðning olli nokkrum styr á sínum tíma, en formaður VR á þeim tíma var núverandi eiginmaður Söru Lindar, Stefán Einar Stefánsson, hlaðvarpsstjórnandi hjá Morgunblaðinu og mbl.is og kampavínsinnflytjandi.

Eftir að Stefán Einar var felldur í formannskjöri hjá VR árið 2013 var Söru Lind sagt upp störfum þar vegna skipulagsbreytinga. Hún höfðaði mál gegn félaginu vegna meints eineltis og ólögmætrar uppsagnar en tapaði því á báðum dómstigum.

Sara Lind hefur sérhæft sig í vinnumarkaðs- og mannauðsmálum, lengst af í fjármálaráðuneytinu, þar til hún var færð til í starfi úr ráðuneytinu til Ríkiskaupa um áramótin 2020-2021. Þar var hún sett í stöðu sviðsstjóra stjórnunar og umbóta, jafnframt því sem hún var gerð að staðgengli forstjóra.

Fyrr í vikunni lýsti fjármálaráðherra því yfir að bygging nýs Landspítala væri stærsta fjárfesting ríkisins í Íslandssögunni, en til stendur að verja 210 milljörðum í spítalann, bróðurpartinum fram til ársins 2030. Ljóst er að mikið mun mæða á Ríkiskaupum í tengslum við þetta verkefni.

Hringbraut hefur heyrt í nokkrum aðilum í stjórnkerfinu og stjórnmálunum og lýsa margir áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem upp er komin. Einn stjórnarþingmaður, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir sporin hræða. Bendir hann á að mikil vandræði hafi hlotist fyrir stjórnarmeirihlutann vegna Íslandsbankaútboðsins á síðasta ári, auk þess sem ekki sjái fyrir endann á Lindarhvolsklúðrinu sem fjármálaráðherra beri ábyrgð á.

Greinilegt er að mikið vantraust ríkir gagnvart fjármálaráðherra, bæði meðal stjórnarandstöðunnar og margra stjórnarliða. Viðmælendur Hringbrautar telja margir að Bjarni Benediktsson hyggist skipa Söru Lind í stöðu forstjóra Ríkiskaupa síðar í sumar að undangenginni auglýsingu. Mjög drjúgur hluti metfjárfestingarinnar í Landspítalanum mun fara í gegnum Ríkiskaup og óttast fólk að vildarvinir og fjölskyldumeðlimir fjármálaráðherra geti nýtt sér það að faglega veikur forstjóri, sem að auki sé bæði handgenginn Bjarna og eigi frama sinn undir honum, sé yfir Ríkiskaupum. Einn viðmælandi Hringbrautar segir Lindarhvolsklúður Bjarna eiga að vera hér víti til varnaðar.

Bandamenn Bjarna hafa lýst þeirri skoðun við Hringbraut að þeir hafi ekki trú á því að Bjarni muni ganga svo langt að skipa Söru Lind forstjóra Ríkiskaupa í ljósi þess að hana skorti áþreifanlega menntun og reynslu á þessu sviði. Í dag sé ekki lengur nægjanlegt að vera með lögfræðimenntun til að setjast í feit embætti í stjórnkerfinu. Einn orðaði það svo að Bjarni og flokkurinn væri búinn með sín níu líf þegar kemur að spillingu og klúðri.