Fjármálaráðuneytið lætur sér ekki segjast – reynir enn að slá ryki í augu fólks um Lindarhvol

Fjármálaráðuneytið hefur í annað sinn gert breytingar á tilkynningu sem birtist á vef ráðuneytisins 9. mars síðastliðinn um málefni Lindarhvols eftir ábendingu frá umboðsmanni Alþingis um að tilkynningin stangist á við rétta túlkun laga. RÚV greindi frá þessu fyrir hádegið. Enn er tilkynningin þó í besta falli villandi.

Upphaflega var fullyrt í tilkynningu ráðuneytisins að opinber birting vinnugagna ríkisendurskoðanda væri andstæð lögum. Þetta var rangt og benti umboðsmaður á það. Þá breytti ráðuneytið orðalaginu í þá veru að birting vinnugagna ríkisendurskoðanda væri „almennt óheimil“.

Umboðsmaður benti í bréfi til fjármálaráðherra dags. 14. apríl síðastliðinn á að rangt sé hjá ráðuneytinu að birting slíkra skjala sé „almennt óheimil“, þvert á móti sé hún almennt heimil. Þá gagnrýndi umboðsmaður þá röksemdafærslu ráðuneytisins að úrskurðir úrskurðarnefndar um upplýsingamál bönnuðu birtingu greinargerðar Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda, um starfsemi Lindarhvols.

Benti umboðsmaður ráðherra og lögfræðingum ráðuneytisins á að úrskurðarnefndin fjalli jafnan eingöngu um það hvort opinberum aðilum sé heimilt að neita að birta gögn og slík heimild jafngildi því ekki að óheimilt sé að birta gögnin. Af orðum umboðsmanns í bréfinu er deginum ljósara að hann telur ráðuneytið hafa fulla heimild til að birta greinargerð Sigurðar Þórðarsonar.

Hringbraut sendi eftirfarandi fyrirspurn á fjármálaráðuneytið 17. apríl:

„Í bréfi sínu til fjármálaráðherra dags. 14. apríl 2023 fer umboðsmaður Alþingis gagnrýnum orðum um orðalag tilkynningar sem birtist á vef fjármálaráðuneytisins um málefni Lindarhvols 9. mars sl. Fram kemur að þrátt fyrir að ráðuneytið hafi breytt orðalagi í kjölfar fyrirspurna og ábendinga hans sé orðalagið enn ekki í samræmi við gildandi rétt. Hann beinir því til ráðuneytisins „að taka til skoðunar hvort ástæða sé til að gera frekari breytingar á tilkynningunni frá 9. mars sl. í samræmi við þau lagasjónarmið hér hafa verið rakin.

Hyggst ráðuneytið gera frekari breytingar á tilkynningunni í samræmi við ábendingu umboðsmanns?“

Eftirfarandi svar ráðuneytisins hefur nú borist:

„Niðurstaða umboðsmanns Alþingis barst 14. apríl sl. og ráðuneytið tók til skoðunar hvort ástæða væri til að gera frekari breytingar á tilkynningunni. Sú breyting hefur verið gerð að árétta að einungis þegar þagnarskylda á við sé almennt óheimilt að gera vinnuskjöl Ríkisendurskoðanda aðgengileg.“

Af þessu svari er ljóst að fjármálaráðuneytið er enn á harðaflótta undan réttri túlkun laga. Þarna gefur ráðuneytið í skyn að þagnarskylda eigi við um greinargerð Sigurðar Þórðarsonar þó að umboðsmaður Alþingis hafi sérstaklega tekið fram í bréfi sínu að ekkert slíkt sé hægt að lesa út úr úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál þótt þeir heimili ráðuneytinu að synja um birtingu á greinargerð Sigurðar. Þarna reynir ráðuneytið að slá ryki í augu fólks.

Umboðsmanni blöskrar greinilega lagatúlkun fjármálaráðuneytisins og í niðurlagi bréfsins skrifar hann:

„Loks tel ég rétt að upplýsa að atvik þessa máls, svo og ýmissa  annarra mála sem komið hafa til skoðunar hjá umboðsmanni, benda til þess að meðal stjórnvalda kunni almennt að skorta fullnægjandi skilning á þeim réttarreglum sem gilda um rétt almennings til aðgangs að vinnuskjölum og heimildum stjórnvalda til að birta þau eða afhenda að eigin frumkvæði. Hefur þetta því gefið umboðsmanni Alþingis tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði þær almennu reglur sem um þetta gilda með vísan til 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.“

Uppfærð tilkynning ráðuneytisins og áframhaldandi útúrsnúningur á lögum og reglum gefur til kynna að full ástæða sé fyrir umboðsmann að athuga að eigin frumkvæði lögfræðikunnáttu í stjórnkerfinu. Jafnvel gæti hann að eigin frumkvæði leiðbeint lögfræðingum fjármálaráðuneytisins til að þeir geti haft tilkynninguna í samræmi við lög í fjórðu tilraun.