Umfangsmikið samstarf við evrópu

„Þetta samstarf er okkur svo mikilvægt. Fyrir svona litla þjóð að fá aðgang að þekkingu, tækniþekkingu, menntun, og bara að vera í samstarfi við aðrar þjóðir,“ segir Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóra alþjóðasviðs Rannís, en hún var gestur Davíðs Stefánssonar í þættinum Ísland og umheimur sem sýndur var hér á Hringbraut í gærkvöld. Hún ræddi starfsemi Rannís og áhrif EES samningsins á menntun og rannsóknir á Íslandi.

Á vegum Rannsóknamiðstöðvar Íslands eða Rannís, er rekið umfangsmikið alþjóðastarf á sviði rannsókna, vísinda, mennta og menningar. Hlutverk Rannís er að treysta stoðir íslenskrar þekkingar með stuðningi sínum við hinar ýmsu rannsóknir, nýsköpunarverkefni, menntun og menningu. Þetta gerir Rannís með því að reka samkeppnissjóði og með því að kynna alþjóðleg sóknarfæri og samstarfsmöguleika.

Alþjóðasvið Rannís, sem Aðalheiður Jónsdóttir veitir forstöðu, hefur umsjón með fjölmörgum evrópskum og norrænum styrkjaáætlunum og verkefnum sem miða að því að styðja við alþjóðlegt samstarf íslensks vísindasamfélags. Hryggjarstykkið þessa alþjóðastarfs byggir á sérstökum ákvæðum EES samningsins um samstarf á sviði vísinda, mennta, rannsókna og menningarverkefna.

Hver evra kemur tvöfalt til baka

Aðalheiður segir að stærsta einstaka verkefni alþjóðasviðsins sé að hafa umsjón með rannsóknar og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, sem heitir „Horizon 2020“ og er rammaáætlun með 20 undiráætlunum sem ætlað er að styðja við rannsóknir og nýsköpun. „Við höfum tekið þátt í þessu frá 1994 þegar þetta gekk í gildi. Við höfum tekið mjög virkan þátt og staðið okkur vel. Við greiðum ákveðið framlag inn í þessa sjóði og þessar áætlanir. Það má segja að fyrir hverja evru sem við greiðum inn þá fáum við tvær og stundum rúmlega tvær til baka,“ segir Aðalheiður. Hún segir áhugavert að horfa árangurs Íslendinga í rannsóknar- og nýsköpunaráætluninni sem fór af stað árið 2014 og standi til sjö ára. Frá árinu 2014 hafi 80 milljónir evra eða um 11 milljarðar kr. runnið til 176 samstarfsverkefna íslensks vísinda- og nýsköpunarsamfélags.

Svipaða sögu mætti segja af menntaáætluninni Erasmus+ og menningaáætluninni Creative Europe. „Við stöndum okkur vel. Við stöndum okkur ótrúlega vel, ekki bara miðað við höfðatölu heldur almennt,“ segir hún.

Aðalheiður segir að eitt sé fjármagn en öllu mikilvægara sé það samstarf og alþjóðatengingar sem þetta starf skilar. „Þetta samstarf er okkur svo mikilvægt. Fyrir svona litla þjóð að fá aðgang að þekkingu, tækniþekkingu, menntun, og bara að vera í samstarfi við aðrar þjóðir.“ Hún segir að allir sjö háskólarnir í landinu, langflestir framhaldsskólar og mjög margir leiksskólar hafi tekið þátt sem og allar rannsóknastofnanir á Íslandi.

10% þjóðarinnar hefur tekið þátt

Aðalheiður segir að á mennta- og á rannsóknarsviðinu sé árangurinn ótrúlegur. „Það má segja að frá upphafi hafi um 10% íslensku þjóðarinnar tekið þátt í þessu samstarfi eða 1/2 % á hverju ári. „Þetta er gríðarlegur fjöldi. 10% íslensku þjóðarinnar hefur tekið þátt í Evrópusamstarfi  styrktu af ESB á sviði mennta, menningar, rannsókna og nýsköpunar,“ segir Aðalheiður. Þannig hafi 1/2 % íslensku þjóðarinnar tekið þátt í þessu Evrópusamstarfi á hverju ári.

Þetta þýðir einnig að hingað sækja margir Evrópubúar til þátttöku í verkefnum hér á landi. „Það má segja að frá því að við hófum þetta samstarf 1994, hafi milli 40-50.000 erlendir samstarfsaðilar, einstaklingar, komið hingað í háskólanám eða samstarfsverkefni eða í starfsnám eða starfsþjálfun. Þannig að þetta er gífurlegur fjöldi.“

Þýðing EES ótvíræð fyrir íslenskt vísinda- og menntastarf

Aðalheiður segir að mikilvægi EES samningsins sé mikið fyrir íslenskt vísinda og menntastarf. „Það er náttúrulega annars vegar að fá þessa styrki í gegnum samninginn og greiðum inn í þessar áætlanir og fáum tvöfalt og stundum meira til baka en það sem er mikilvægast er í þessu er að fá aðgang að þessari þekkingu og samstarfi.“ Hún segir að landslagið hafi breyst mikið þann aldarfjórðungur sem EES samningurinn hefur verið í gildi: „Ég held að þýðing samningsins sé ótvíræð og gífurlega mikil, ekki síst í þessari þekkingarmyndun og aðgangi að samstarfinu. Við erum svo smá að við þurfum að vinna með öðrum þjóðum til að þróast.“

Viðtalið við Aðalheiði í heild sinni er að finna hér: