Um „lifandi réttarframkvæmd“

Að und­an­förnu hafa gengið dóm­ar við Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu sem hafa orðið til­efni til umræðna hér á landi um þýðingu þess­ara dóma fyr­ir ís­lensk­an inn­an­lands­rétt. Virðast þá sum­ir telja að slík­ir dóm­ar dugi til þess að gera ís­lensk­um dóm­stól­um skylt að breyta laga­fram­kvæmd hér inn­an­lands án þess að meira komi til.

Á þessi sjón­ar­mið er ekki unnt að fall­ast. Í for­send­um dóms Hæsta­rétt­ar 22. sept­em­ber 2010 (mál nr. 371/​2010) seg­ir orðrétt svo:

„Með lög­um nr. 62/​1994 var mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu veitt laga­gildi hér á landi (…). Í 2. gr. þeirra er tekið fram að úr­lausn­ir mann­rétt­inda­nefnd­ar Evr­ópu, mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu og ráðherra­nefnd­ar Evr­ópuráðsins séu ekki bind­andi að ís­lensk­um lands­rétti. Með ákvæði þessu hef­ur lög­gjaf­inn áréttað að þrátt fyr­ir lög­fest­ingu sátt­mál­ans sé enn byggt á grunn­regl­unni um tvíeðli lands­rétt­ar og þjóðarétt­ar að því er varðar gildi úr­lausna þeirra stofn­ana sem sett­ar hafa verið á fót sam­kvæmt sátt­mál­an­um. Þótt dóm­stól­ar líti til dóma mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins við skýr­ingu sátt­mál­ans þegar reyn­ir á ákvæði hans sem hluta af ís­lensk­um lands­rétti, leiðir af þess­ari skip­an að það er verk­efni lög­gjaf­ans að gera nauðsyn­leg­ar breyt­ing­ar á lands­rétti til að virða skuld­bind­ing­ar ís­lenska rík­is­ins sam­kvæmt mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu.“

Hér lýs­ir Hæstirétt­ur með ein­föld­um hætti laga­legri stöðu úr­lausna MDE gagn­vart ís­lensk­um rétti. Þær úr­lausn­ir geta aðeins orðið til­efni til at­hug­un­ar á því hér inn­an­lands, hvort breyta beri ís­lensk­um lög­um til sam­ræm­is við dóm frá MDE og þá af þeirri stofn­un (Alþingi) sem fer með valdið til að setja land­inu lög.

Það ger­ir stöðuna ekki auðveld­ari þegar dóm­stóll­inn þar ytra ákveður að breyta fyrri dóma­fram­kvæmd og leysa úr mál­um á ann­an hátt en hann hef­ur sjálf­ur gert áður. Þetta kalla spak­ir menn „lif­andi réttar­fram­kvæmd“. Hún felst í því í reynd að setja nýj­ar laga­regl­ur og þá jafn­vel um mál­efni sem föst laga­fram­kvæmd hef­ur verið á. Eng­inn dóm­stóll ætti að telj­ast hafa heim­ild­ir til slíkra hátta.

Þegar þetta ger­ist taka menn að kalla eft­ir sam­bæri­leg­um breyt­ing­um á dómsúr­lausn­um inn­an­lands, þó að lög hald­ist óbreytt. Það er svo verra að ís­lensk­ir dóm­stól­ar hafa að ein­hverju marki látið und­an þessu, þrátt fyr­ir skýra af­stöðu Hæsta­rétt­ar í dóm­in­um 2010. Slík fram­kvæmd stenst ekki ís­lenska stjórn­skip­un, svo sem mælt er fyr­ir um hana í stjórn­ar­skránni.

Hitt má vera rétt, að ís­lensk stjórn­völd séu oft hæg­fara við at­hug­un á því, hvort leggja beri til við Alþingi breyt­ing­ar á inn­an­lands­rétt­in­um vegna nýrra dóma þar ytra. Þar mætti vel hvetja þau til skjót­ari viðbragða. Menn ættu hins veg­ar að muna að laga­breyt­ing­ar, sem þannig verða til, geta ekki að ís­lensk­um stjórn­lög­um dugað til aft­ur­virkra breyt­inga í mál­um fortíðar, hvort sem dóm­ar hafa þegar gengið í þeim eða ekki hér inn­an­lands.