Um sex þúsund með ódæmigerð kyneinkenni

 Áætlað er að í kringum 68 börn fæðist með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni á hverju ári á Íslandi, þ.e. hormónastarfsemi, kynkirtla, kynlitninga eða kyn- og æxlunarfæri sem eru með einhverju móti öðruvísi en hjá flestum konum og körlum sem þýðir að heildarfjöldi einstaklinga með ódæmigerð kyneinkenni er um 6000 manns. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International er nefnist No Shame in Diversity: The right to health for people with variations of sex characteristics in Iceland.

Þetta er í fyrsta skipti sem Amnesty International gerir sérstaka úttekt á Íslandi. Þar kemur meðal annars fram að gerðar hafa verið aðgerðir á íslenskum börnum án þeirra samþykkis með óafturkræfum afleiðingum.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir að þegar einstaklingar með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni og fjölskyldur þeirra leita eftir þjónustu í íslenska heilbrigðiskerfinu þá dregur skortur á skýru mannréttindamiðuðu verklagi og þverfaglegri nálgun, ásamt ónógum félagslegum stuðningi, úr möguleikum þeirra til að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er. 

Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty International er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þar sem hún ræðir skýrsluna. Þátturinn hefst klukkan 21:00.

Frumvarp um kynrænt sjálfræði

Í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International segir að frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði, sem áætlað er að lagt verði fyrir Alþingi í febrúar, ætti að skapa tækifæri til að vernda réttindi intersex barna og fullorðinna en í núverandi drögum að frumvarpinu er vöntun á mikilvægri vernd fyrir intersex börn. Þá sérstaklega hvað varðar ákvæði til að koma í veg fyrir ónauðsynlegar, óafturkræfar og inngripsmiklar aðgerðar á börnum sem fæðast með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni.