Tvö íslensk verk tilnefnd til bókmenntaverðlauna norðurlandaráðs

Elín, ýmislegt, skáldsaga eftir Kristínu Eiríksdóttur, og Kóngulær í sýningargluggum, ljóðabók eftir Kristínu Ómarsdóttur, hafa verið tilnefndar til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2019. Alls eru 13 norrænar skáldsögur, smásagnasöfn og ljóðabækur tilnefndar og tilkynnt verður um verðlaunahafann í Stokkhólmi í haust.

Elín, ýmislegt segir frá Elínu, sem býr til leikmuni og gervi fyrir kvikmyndir og leikhús. Þó hún sé komin yfir sjötugt lifir hún enn fyrir vinnuna. Hún býr ein og veit ekki af fortíðinni sem leynist í kössum úti í bæ. Dag einn birtast þeir á stofugólfinu hennar. Þegar Elín fer að vinna við sýningu á nýju leikriti eftir unga vonarstjörnu, Ellen Álfsdóttur, vitjar fortíðin hennar á ný. Leiðir þeirra tveggja hafa áður legið saman við hræðilegar kringumstæður, þó að önnur muni ekki eftir því og hin sé í þann veginn að gleyma því.

Í Kóngulær í sýningargluggum umbreytist hversdagur í ævintýri, draumur í hrylling, beinaber veruleikinn blasir við – ljóðmálið hjúpar og afhjúpar. Bókinni er lýst sem beittri, myndrænni, ægifagurri og óhugnanlegri.

Rökstuðningur dómnefndar

Rökstuðningur dómnefndar fyrir tilnefningu Elín, ýmislegt er eftirfarandi:

„Ég hef verið svo margar konur,“ segir hin aldraða aðalpersóna í Elín, ýmislegt við unga stúlku og finnst stúlkan hlæja óþarflega hátt. Skáldsaga Kristínar fjallar um sjálfsmynd kvenna frá mörgum hliðum, það má gefa af sér góða mynd, búa til betri myndir eða falsa sjálfsmyndina sem öðrum er sýnd. Í sýndarveruleika okkar tíma er allt mögulegt. Aðalpersónan Elín er leikmyndasmiður og býr til líkama og líkamshluta sem þurfa að vera sannfærandi. Þeir eru einskis virði nema þeir líti rétt út. En veruleikinn lítur ekki alltaf þannig út. Meiddur kvenlíkami er þema sem birtist nokkrum sinnum í bókinni, ýmist sem leikmunur eða veruleiki. 

Elín virðist í sögunni reyna að þurrka tilfinningalíf sitt út en jafnframt eigna sér tilfinningalíf annarra og persónur renna meira og minna saman. Nöfn þeirra líkjast og blandast og að vissu leyti er Elín margar konur eins og hún segir sjálf.  Sterkustu tilfinningar hennar tengjast bernsku og dauða og tengsl hennar við barnið Ellen má sjá í því ljósi. Að lokum hverfur merkingin úr lífi Elínar og tengslin við tungumálið og eftir standa spurningarnar hvernig getur kona vitað hver hún er og hvað hún heitir? og hversu margar konur getur ein kona verið? 

Ríkjandi þemu í skáldskap Kristínar Eiríksdóttur eru þrá eftir ást og skilningi, baráttan við sambandsleysi, einmanaleiki, misnotkun, ofbeldi og óhugnaður. Skáldsagan Elín, ýmislegter skýrt dæmi um þetta. Þar birtist öflug rödd ungrar konu í listrænum og markvissum texta. 

Rökstuðningur dómnefndar fyrir tilnefningu Kóngulær í sýningargluggum er eftirfarandi:

Í ljóðum Kristínar Ómarsdóttur lítur sakleysið út eins og skyrsletta á vegg, bréfið undir koddanum spyr: ertu þarna? Spegillinn handsamar mynd ljóðmælandans þegar hann greiðir morgunbleikt hárið, landdreymnar hafmeyjar stinga höfði upp úr sjónum, glerbrjóst eru auglýst og torgið snarað með sjóndeildarhringnum. Kristín Ómarsdóttir hefur alltaf reynt hressilega á þanþol tungumálsins. Frumlegar ljóðmyndir hennar eru óvæntar og stundum súrrealískar.

Þegar bókin Kóngulær í sýningargluggum kom út sagði þekktur íslenskur gagnrýnandi: „Kristín gerir allt í senn að heilla, skelfa, græta og gleðja.“ Hún ræður vel við skáldsögur og leikrit en nýtur sín þó sennilega best í ljóðforminu eins og bókin Kóngulær í sýningargluggum ber skýran vott um.

Um höfundanna

Kristín Eiríksdóttir, höfundur skáldsögunnar Elín, ýmislegt, er fædd árið 1981. Hún gerði fyrst vart við sig á ritvellinum sem ljóðskáld en hefur einnig skrifað skáldsögur, smásögur og leikrit. Fyrsta ljóðabók hennar, Kjötbærinn, kom út árið 2004. Áður höfðu ljóð hennar birst í tímaritum og dagblöðum. Á eftir fylgdu svo ljóðabækurnar Húðlit auðnin árið 2006 og Annarskonar sæla árið 2008. Árið 2010 kom út smásagnasafnið Doris deyr og haustið 2012 sendi hún frá sér sína fyrstu skáldsögu, Hvítfeld – fjölskyldusaga. Hún hefur einnig skrifað tvö leikrit: Karma fyrir fugla ásamt Kari Ósk Grétudóttur (2013)  og Skríddu (2013). Kristín er jafnframt menntaður myndlistarmaður og hefur tekið þátt í samsýningum og gjörningum.

Kristín Ómarsdóttir, höfundur ljóðabókarinnar Kóngulær í sýningargluggum, er fædd árið 1962. Hún hefur jöfnum höndum fengist við ljóða- og skáldsagnagerð, smásögur og leikritun. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín. Skáldsagan Elskan mín ég dey var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999 og leikrit hennar, Ástarsaga 3, var tilnefnt til Norrænu leikskáldaverðlaunanna i 1998. Árið 2005 fékk hún Grímuverðlaunin sem leikskáld ársins fyrir leikritið Segðu mér allt. Fyrir ljóðabókina Sjáðu fegurð þína hlaut hún Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta árið 2008. Kristín hefur einnig unnið að myndlist, sýnt teikningar og tekið þátt í sýningum þar sem hún hefur unnið með ólík form, myndbönd og skúlptúra. Bækur eftir Kristínu hafa verið þýddar á sænsku, frönsku og finnsku og ljóð hennar hafa birst í erlendum safnritum.