Tvær kvartanir um kynferðislega áreitni komnar inn á borð forsetahjónanna

Tvær kvartanir um meinta kynferðislega áreitni eru til skoðunar innan skrifstofu forseta Íslands. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er andrúmsloftið mjög þungt á skrifstofu forsetans. Báðar kvartanirnar beinast gegn sama starfsmanninum sem starfar á skrifstofunni. Málið er komið inn á borð þeirra forsetahjóna, Guðna Th. Jóhannessonar og Elizu Reid. Sagt er að forsetahjónin taki kvartanirnar mjög alvarlega.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins átti eitt atvik sér stað í starfsmannaferð í París í Frakklandi í síðasta mánuði. Hitt atvikið átti sér stað hér á landi. Örn­ólfur Thors­son forsetaritari vildi ekki tjá sig um málið þegar haft var samband við hann vegna málsins.