Trump vildi borga eftir fyrsta skiptið

Karen McDougal, fyrrverandi Playboy fyrirsæta, bættist í gær í hóp kvenna sem segjast hafa átt í ástarsambandi við Donald Trump Bandaríkjaforseta. McDougal sagði í einkaviðtali á CNN að sambandið hefði staðið í 10 mánuði á árunum 2006 til 2007, sem var eftir að hann giftist  Melaniu eiginkonu sinni. Það er á svipuðum tíma eða nokkru eftir þann tíma sem Stephanie Clifford (öðru nafni Stormy Daniels) segist hafa átt í sambandi við forsetann.

McDougal hefur nú höfðað mál til að losna undan þagnareiða um sambandið sem hún var fengin til að undirrita í samkomulagi við útgefanda National Enquirer, sem er náinn vinur Trumps.

Hún sagði í CNN viðtalinu við Anderson Cooper í gær að Trump hefði rétt henni peninga eftir fyrsta skiptið sem þau voru saman, sem hafi grætt hana. „Ég er ekki þannig stúlka,“ sagðist hún hafa sagt honum.

Hún sagðist hafa slitið sambandið vegna sektarkenndar og bað Melaniu Trump afsökunar, þegar hún var spurð hvað hún myndi vilja segja við forsetafrúna núna.

Viðtalið á CNN má sjá hér. Viðtal sem Anderson Cooper tók við Stephanie Clifford (Stormy Daniels) fyrir \"60 Minutes\" verður sýnt á CBS á sunnudag.