Trump rak rex tillerson á twitter

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti óvænt á Twitter í dag um nýjan utanríkisráðherra, Mike Pompeo, í stað Rex Tillersons.

Uppsögnin kom Tillerson í opna skjöldu því Trump hafði ekki talað við hann áður. Tillerson segist ekki enn hafa heyrt skýringu á uppsögninni frá Trump.

Pompeo hefur verið yfirmaður CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna og í hans stað þar kemur fyrsta konan til að gegna því embætti, Gina Haspel. Talað hefur verið um í nokkurn tíma að Tillerson yrði ekki langlífur í embætti, enda hefur skoðanamunur milli hans og forsetans í nokkrum málum verið áberandi. Það var líka eftir því tekið að hann var ekki hafður með í ráðum þegar Trump ákvað að hitta Kim Jung Un leiðtoga Norður Kóreu fyrir helgina.

Trump sagði í dag að þá hefði meðal annars greint á um kjarn­orku­vopna­sam­komu­lagið við Íran. Tillerson hafi þótt samningurinn við Írani góður en sér þyki hann hræðilegur.

Eftir því sem líður á daginn hefur komið í ljós að tvennum sögum fer af því með hvaða hætti uppsögnina bar að. Í frétt AP er sagt að John Kelly starfsmannastjóri Hvíta hússins hafi tjáð Tillerson um helgina að vera viðbúinn Twitter-yfirlýsingu um hann frá Trump en ekki um að hún yrði um brottrekstur hans. Í öðrum fréttum er haldið fram að Kelly hafi sagt Tillerson um helgina að hann þyrfti að segja af sér eða verða rekinn ella. 

Steve Goldstein, aðstoðarutanríkisráðherrann sem tilkynnti um uppsögn Tillersons af hálfu ráðuneytisins og kvað hann ekki hafa rætt við Trump fyrir uppsögnina í dag, hefur verið rekinn.