Tóku 50 milljónir úr bílastæðasjóði

Borgarfulltrúar minnihlutans eru ósáttir með framferði meirihlutans í Reykjavík. Borgarfulltrúar meirihlutans ákváðu að fresta afgreiðslu á tillögu minnihlutans um að vísa til siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga til frekari rannsóknar og athugunar áliti umboðsmanns borgarbúa varðandi samninga Bílastæðasjóðs og bílastæðanefndar við Miðborgina okkar.

Á fáum árum hafa um 50 milljónir króna verið færðar úr Bílastæðasjóði og til Miðborgarinnar okkar, sem eru Reykjavíkurborg óviðkomandi.

Í áliti umboðsmanns borgarbúa segir að samningagerðin, aðdragandi og ákvarðanataka séu í verulegri andstöðu við vandaða stjórnsýsluhætti þar sem hún feli í sér ógagnsætt ferli við meðferð opinberra fjármuna þvert á tilmæli.

Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er gestur í Þjóðbraut í kvöld vegna þessa máls.

Hún segir að um 50 milljónir hafa verið færðar úr borgarsjóði vegna þessa.

Hún segir þetta mál vera alvarlegt og áfellisdómur umboðsmanns borgarbúa og álit hans á þann veg að full ástæða er til að krefjast frekari rannsóknar á málinu. Í álitinu kemur fram að umboðsmaður borgarbúa telur það verulega ámælisvert af hálfu bæði Bílastæðissjóðs og bílastæðanefndar að samningar hafi verið gerðir án tillits  til ábendinga hans 10. janúar 2014 en á þeim tíma lá fyrir samningagerð við Miðborgina okkar og að Bílastæðasjóði og bílastæðanefnd hefði átt að vera full kunnugt um ólögmæti samninganna.