Tíminn læknar ekki föðurmissi

Söngvarinn landskunni, Bjarni Arason opnar lífsbók sína upp á gátt í viðtalsþættinum Mannamáli á Hringbraut í kvöld, en óhætt er að segja að hann hafi lifað óvenjulega æsku - og eru fullorðinsárin þar ekki venjulegri.

Lífið fer í hringi, eins og hann þekkir vel, enda er hann núna hótelstjóri í sömu götu og hann byrjaði lífsgönguna, Rauðarárstíg, en þangað fór mamma hans, vel þunguð af nýjasta afkvæmi sínu til að vitja ljósmóðurinnar i götunni. Og Bjarni kom í heiminn - og var nýfarinn að ganga þegar fjölskyldan flutti vestur á Ísafjörð þar sem pabbi hans fékk pláss á Guggunni. En svo gripu örlögin inn í með átakanlegum hætti; hafið hrifsaði Ara Jónsson, föður Bjarna, í fang sér á hafi úti við þriðja mann arið 1974, þegar Bjarni var þriggja ára - og sonurinn segir að hann hafi aldrei náð að jafna sig eftir föðurmissinn. Það komi ekkert í staðinn fyrir pabba.

Hann á sérstakan systkinahóp, en þau eru níu alls, þar af tveir Jónar Arasynir - og einn bróðir Bjarna á tvo Bjarna! Og yngsta systir hans glímdi lengi við alvarleg veikindi svo þær mæðgur, móðir og systir Bjarna, voru á eilífum þeytingi suður á sjúkrahús á Ísafjarðarárunum, ef ekki með flugfélaginu Erni eða akandi, þá með þyrlu Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli ef ófært var með venjulegum rellum eða rútum.

Svo þau urðu að flytja suður - og þar teiknaðist framtíðin upp með skýrum hætti; hann var fyrstur til að rétta upp hendi í barnaskólanum syðra þegar spurt var um áhuga nemandanna á því að læra á eitthvert blásturshljóðfæri. En vonbrigðin voru agaleg; hann þótti ekki hafa réttu varirnar í saxafóninn svo hann varð að læra á trompet sem var nátturlega fjarri því að vera gæjalegt upp úr 1980 þegar saxinn skilaði Mezzoforte heimsfrægð og þótti vera eitthvert kraftmesta hljóðfæri fönksins og rokksins.

Svo sigraði hann í látúnsbarkakeppni Stuðmanna, fimmtán ára strákurinn og var kastað inn í íslenska frægð, svo fast raunar að hann missti fótanna og drakk alltof mikið og illa í þau tíu ár sem liðu þar til hann fékk ógéð á sjálfum sér - og hætti, hefur ekki smakkað það í 23 ár - og er allur annar, þakklátur eiginlega fyrst og fremst - og stígur núna á svið í Háskólabíói laugardagskvöldið 21. október og fer yfir 30 ára söngferil sinn með stíl og stökki.

Mannamál byrjar klukkan 20.30 í kvöld.