Tíðindin sem fara framhjá okkur

Framboð til varaformanns Vinstri grænna hafa vakið minni athygli áhugafólks um stjórnmál en vera skyldi.

 
Þetta er jú næststærsti flokkur landsins, af skoðanakönnunum að dæma.
 
Kosið verður um varaformann á landsfundi flokksins eftir rúmlega tvær vikur, helgina 6.-8. október.
 
Þar verða tveir í framboði að óbreyttu, Edward Hákon Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri, og Óli Halldórsson, bæjarfulltúi og forystumaður Vinstri grænna á Húsavík.
 
Þeir koma báðir úr sama kjördæmi og því mætti líta á báða sem fulltrúa mótvægis við Katrínu Jakobsdóttur og aðra Reykjavíkurmiðaða forystu flokksins.
 
Málið er þó ekki svo einfalt.
 
Báðir frambjóðendur njóta virðingar, hvor með sínum hætti.
 
Edward hefur vakið athygli fyrir rannsóknir sínar á ferðaþjónustu og áhrif hennar á samfélagið, og Óli er óskoraður leiðtogi vinstri manna í Norðurþingi, sem hlaut næstum þriðjung atkvæða þar í síðustu sveitarstjórnarkosningum.
 
En þar lýkur um leið samanburðinum á frambjóðendunum innan flokks.
 
Í einfölduðu máli má segja að þeir séu fulltrúar tveggja fylkinga innan Vinstri grænna.
 
Óli nýtur stuðnings Steingríms J. Sigfússonar og annarra landsbyggðarþingmanna, sveitarstjórnarfólks víða um land og þeirra sem leggja mesta áherslu á atvinnulíf.
 
Þar eru átakamálin mörg innan flokksins og nægir að minna á kolamengandi stóriðju á Bakka, laxeldi í sjókvíum og annað þvi skylt.
 
Edward Hákon sækir stuðning sinn hins vegar fremur til háskólafólks og afdráttarlausra náttúruverndarsinna, sem eru allajafna fleiri sunnan heiða en norðan og austan.
 
Viðmælendur Hringbrautar innan Vinstri grænna eru flestir sammála um að flokkurinn logi nú þegar stafnanna á milli og að enginn verði sáttur við niðurstöðuna – hver sem hún verður.
 
Úrslitin munu líka hugsanlega vekja minni athygli en vera skyldi.