Þorsteinn: „ríkisstjórnin er einfaldlega búin að eyða allt of miklu“

Í síðustu viku lagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra fram endurskoðaða fjármálastefnu fyrir tímabilið 2018-2022. Stefnan felur í sér að dregið verði úr áformuðum afgangi á heildarafkomu hins opinbera.

Með breyttum horfum í efnahagsmálum er gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs dragist umtalsvert saman og gæti afkoman versnað um allt að 35 milljarða króna á árunum 2019 og 2020. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, er gagnrýninn í garð þessarar nýju fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og telur að núgildandi fjármálastefna hafi byggt á of bjartsýnum efnahagsforsendum þegar hún var lögð fram.

„Ég held að þetta undirstriki það að ríkisstjórnin er einfaldlega búin að eyða alltof miklu og er núna að horfast í augu við þversögnina sem var ítrekað bent á. Að það er ekki hægt að gera hvoru tveggja, að ætla að trimma niður skattstigið og auka útgjöld jafn mikið og búið er að gera,“ sagði hann í samtali við RÚV um liðna helgi.

Þorsteinn telur ríkisstjórnina hafa farið fremur frjálslega með lög um opinber fjármál. „Viðvörunarljósin loguðu nú nokkuð skært hérna fyrir tveimur árum síðan og þegar þessi ríkisstjórn tók við var hún strax gagnrýnd fyrir óraunhæfar útgjaldaforsendur. Að það ætti að auka verulega ríkisútgjöldin í hápunkti þenslunnar sem hlyti þá að leiða til þess á endanum að annað tveggja þyrfti að gerast, skera niður þegar tæki að draga saman á ný eða hækka skatta.“

Hann bendir á að í þeim útgjaldaáformum sem ríkissjóður var með í upprunalegri fjármálaáætlun hafi verið gert ráð fyrir að bæta 10 til 15 milljörðum í fjárfestingastigið á hverju ári. Nú teljist það varla raunhæft og því gæti farið svo að ríkisstjórnin neyðist til að hækka skatta.

„Það er auðvitað það sem þessi breyttu vinnubrögð í lögum um opinber fjármál áttu að koma í veg fyrir, að við værum alltaf í þessari hefðbundnu sveiflu. Að ríkisútgjöldin væri belgd út í uppsveiflunni og kyntu þannig undir þenslunni og svo væri verið að draga saman á þeim tíma þegar hagkerfið þarf hvað mest á örvun að halda,“ bætir Þorsteinn við.

Að lokum segist hann óttast að þær hagspár sem nú sé miðað við í framlagningu nýju fjármálastefnunnar séu enn of bjartsýnar. „Allt bendir til þess að við séum að fara í gegnum mjög harkalega aðlögun næstu tvö ár. Eitt af grundvallarmarkmiðunum í lögum um opinber fjármál er langtímasjálfbærni ríkisfjármálanna. Ég sé ekki að ríkisfjármálin, með þessari áætlun, geti talist sjálfbær til lengri tíma litið. Það er verið að gera ráð fyrir því, meira að segja í þessum bjartsýnu hagspám, að ríkissjóður verði rekinn á núllinu eða jafnvel með lítils háttar halla næstu þrjú til fjögur árin.“