Þórarinn ósáttur við costco: „ekki boðlegt í þessu landi“

„Ég var nú einn af þeim sem fagnaði hvað mest þegar þeir komu hingað, ekki bara vegna þess að þeir voru nágrannar mínir heldur bara vegna þess að ég vildi sjá aukna samkeppni.“

Þetta segir Þórarinn Ævarsson í Viðskiptapúlsinum, hlaðvarpi sem birt er á vef Morgunblaðsins. Þórarinn sem sagði nýverið upp sem framkvæmdastjóri IKEA gagnrýnir Costco og segir að vöruúrval sé ekki lengur það sama. Þórarinn segir:

„Persónulega hefur Costco valdið mér vonbrigðum [...] Ég er mikill talsmaður þess að það sé óheft samkeppni, ég held hún leiði bara gott af sér,“ segir Þórarinn og bætir við:

„Þeir hafa verið minna spennandi eftir því sem tíminn líður heldur en í byrjun. Þegar maður kom þarna fyrst svignuðu hillurnar undan ferskum ávöxtum og grænmeti, og það voru fiskabúr með lifandi kröbbum. Þetta allt meira og minna farið og það er svolítil spæling.“

Þórarinn gagnrýnir einnig að hillumerkingar séu á ensku í stað íslensku.

„Það er í sjálfu sér ekki boðlegt í þessu landi, alls ekki boðlegt að svona stórt fyrirtæki hafi ekki fyrir því að þýða yfir á íslensku. Ég held að þetta fari ofan í undirmeðvitund fólks og trufli það til lengri tíma. Ég held að fólk stuðist við þetta, þótt það segi ekki mikið.“

Þá segir Þórarinn að starfsmannaveltan sé gríðarleg.

„Ég hef fengið fullt af fólki sem hefur sótt um vinnu hjá mér sem kemur úr Costco og fólk stoppar stutt við. Þeir eru ekki að ná að halda í íslenskt fólk. Með fullri virðingu fyrir erlendum starfsmönnum, þá þarf íslenskt fólk að vera þarna líka.“