Þetta sögðu erlendir miðlar um frammistöðu Hatara – Slefað yfir Hatara

Þetta sögðu erlendir miðlar um frammistöðu Hatara – Slefað yfir Hatara

Athyglisvert er að skoða viðbrögð erlendra fjölmiðla eftir frábæra frammistöðu Hatara í undankeppni Eurovision í gærkvöldi. Þar komst sveitin áfram og mun því taka þátt í lokakeppninni í Tel Aviv í Ísrael á laugardaginn kemur.

Hringbraut tók saman nokkur ummæli erlendra miðla:

Independent var yfir sig hrifið og hreinlega slefaði yfir frammistöðu Hatara: „Þetta er allt sem Eurovision ætti að vera: Út úr skelinni, opinskátt, algjörlega geðveikt. Með ógrynnin öll af eldi. Uppáhöldin okkar, Hatari! BDSM klædda sveitin frá Íslandi flýgur í úrslit keppninnar þetta árið og það er auðvelt að sjá hvers vegna.“

Yahoo í Ástralíu sagði: „Sveitin fór á svið klædd í latex og leður, dönsuðu með BDSM þema við mikinn fögnuð áhorfenda og uppskar háværustu fagnaðarlæti kvöldsins. Frammistaðan vakti nokkra furðu hjá netverjum en flestir voru ánægðir með atriðið.“

Metro komst skemmtilega að orði: „Búðu þig undir að þurfa að útskýra fyrir móður þinni hvað „industrial BDSM“ er eftir frammistöðu Íslands. Hatari er nokkurn veginn það sem þú færð ef Rammstein myndi hitta fyrir Die Antwoord, sem hittir kynlífsbúð í Soho, í dýflissu. Það gæti verið að Hatrið mun sigra sé mjög gott lag. Það gæti verið að það séu einhverjir rokk aðdáendur á meðal áhorfenda Eurovision. Eða það gæti verið að fólk sé í „kinkí“ gír.“

Junkee skrifaði langa grein um frammistöðu Hatara og sagði þar meðal annars: „Myndefnið af hljómsveitinni þegar kemur í ljós að hún hafi komist áfram í lokakeppnina er ekkert minna en „íkónískt“, þar sem þau sitja saman í sófa í fullum BDSM klæðum. Einn meðlima bregst ekkert við, annar sleikir latex umvafið læri sitt og enn annar veifar regnboga fána af rósemd í bakgrunni.“

Irish Examiner sagði: „Framlag Íslands var sjokkerandi, þar sem keppendur komu fram í leðri og latexi umkringd eldi. Þeim var fagnað með háværustu fagnaðarlátum kvöldsins, þar sem þau sameinuðu danstónlist, þungarokk og popp.“

Verdens gang í Noregi var ekki jafn hrifið: „Eurovision er ekki Eurovision án ódýrra brellna og þetta árið er Hatari þar á meðal. Því miður er ætluð gagnrýni á kapítalisma sem spiluð er af BDSM bandinu með þýskum hljóm ein sú tilgangslausasta. Hatrið sigrar já, til hamingju með ekkert.“

Nýjast